Orkuveita Reykjavíkur hefur hug á að láta kanna hvort örplast leynist í neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar. Greint var frá því á vef Guardian að örplast hafi fundist í neysluvatni í 83% tilvika í stórri rannsókn sem náði til ríkja Evrópu, Ameríku, Afríku og Asíu.
Ástandið var verst í Bandaríkjunum þar sem plast fannst í 94,4% tilvika, en þar sem það mældist best í Evrópu fannst örplast engu að síður í drykkjarvatni í 72% tilvika. Mbl.is ræddi í gær við Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, umhverfisefnafræðing hjá Matís, sem sagði enga slíka rannsókn hafa verið gerða hér á landi.
„Þegar við fréttum af þessari rannsókn nú í vikunni þá settu okkar vísindamenn sig í samband við rannsakendurna og við erum að undirbúa það að senda sýni héðan til að athuga hvort að örplast sé að finna í vatninu í Reykjavík,“ segir Eiríkur.
Rannsóknin var gerð á vegum Orb Media og segir Eiríkur þá hafa tekið vel í beiðni Orkuveitunnar um að taka sýni héðan til efnagreiningar og rannsóknar. „Við eigum eftir að fá upplýsingar frá þeim um það hvað þetta kostar, þannig að þetta er ekki endanlega frágengið, en þetta er allt í farvegi.“
Guardian greindi frá því að í Bandaríkjunum, þar sem ástandið var hvað verst, hefðu sýni m.a. verið tekin í þinghúsinu í Washington, húsakynnum Umhverfisstofnunar og í Trump-turninum í New York.
Eiríkur segir Orkuveituna sé fyrir sér að tekin verði sýni á nokkrum stöðum hér til að varpa ljósi á stöðu mála. „Við sjáum þá fyrir okkur að taka til að mynda sýni úr vatnsbólum, úr dreifikerfum Veitna, úr krönum og þá kannski í nokkrum misgömlum hverfum í borginni.“
Hann segir Orkuveituna ekki hafa áhyggjur af málinu á þessu stigi, en að menn þar séu mjög forvitnir. „Fyrir það fyrsta, þá vitum við ekki hvort að örplast sé að finna hér og svo eru enn þá getgátur um áhrifin af því, þar sem þetta finnst erlendis. Þannig að við erum með þessu að taka þetta fyrsta skref til að ganga úr skugga um það hvort að samsvarandi efni séu að finnast í drykkjarvatninu hér.“
Eina rannsóknin sem gerð hefur verið á örplasti í íslensku umhverfi, svo vitað sé, er rannsókn á affallsvatn frá skólphreinsistöðum sem birt var í fyrra. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að skólphreinsistöðvar á Íslandi séu ekki að ná að hemja örplastið og agnirnar fari óhreinsaðar út í sjóinn. Hreinsistöðvar í Finnlandi og Svíþjóð sem skoðaðar voru í rannsókninni voru hins vegar að ná að hemja 100 míkrógramma örplastagnir.
Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum, segir verið að setja af stað mælingar vegna þessa. „Við erum ekki komin með neinar niðurstöður sem hægt er að birta,“ segir hún. „Við höfum þó verið að skoða hvað við getum gert til að hreinsa betur og til að átta okkur á hvaðan þetta sé helst að koma.“
Verið sé að setja af stað sýnatöku þessu tengdu. Einnig sé verið að skoða hvað sé besta aðgerðin og hvað annar hreinsibúnaður kunni að kosta. „Það hefur þó ekkert verið ákveðið varðandi það hvort eða hvenær verði farið í slíkar aðgerðir,“ segir Íris.