Orkustofnun ákvað í dag að synja kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2016 til 2025. Með breytingu á raforkulögum á árinu 2015 fékk Orkustofnun nýtt hlutverk sem felst í eftirliti með uppbyggingu flutningskerfisins í gegnum kerfisáætlun Landsnets.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkustofnun.
Þar kemur fram að Landsnet skuli árlega leggja fram kerfisáætlun til samþykktar hjá Orkustofnun sem feli í sér tvo meginþætti:
„Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mat Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kemur í stað leyfisveitinga stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum. Þannig felur samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.
Orkustofnun fékk kerfisáætlun 2016 til 2025 fyrst til formlegrar meðferðar í lok mars á þessu ári. Þann 8. maí síðastliðinn gerði stofnunin athugasemdir við framlagða kerfisáætlun Landsnets og krafðist breytinga á áætluninni.
Landsnet skilaði Orkustofnun uppfærðri kerfisáætlun með breytingum þann 27. júní síðastliðinn. Í einhverjum tilvikum taldi Landsnet að fyrirtækinu bæri ekki skylda til þess að veita umbeðnar upplýsingar.
„Orkustofnun hefur nú yfirfarið þær breytingar sem Landsnet hefur gert á kerfisáætlun fyrirtækisins og er það mat stofnunarinnar að enn séu töluverðir annmarkar á áætluninni. Annmarkar þessir felast einkum í því að áætlunargerð vegna einstakra framkvæmda á framkvæmdaáætlun er í einhverjum tilvikum ekki lokið eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um framkvæmdir þannig að hægt sé að taka afstöðu til þess hvort þær uppfylli skilyrði raforkulaga. Það var því niðurstaða Orkustofnunar að synja kerfisáætlun Landsnets 2016-2025. Ákvörðunin er kæranleg til úrskurðarnefndar raforkumála.“