„Við munum ekki gefast upp“

þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára verða að …
þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára verða að óbreyttu sendar úr landi. Samsett mynd

„Þeirra sterkasta von er að einhver grípi inn í málið núna og hreinlega stöðvi þessar brottvísanir,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólks á Íslandi, um stöðu tveggja stúlkna, hinnar 11 ára gömlu Haniye Maleki  og 8 ára gömlu Mary, sem vísað verður úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar á næstu dögum.

Samtökin, ásamt vinum og velunnurum stúlknanna og fjölskyldna þeirra, hafa boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun þar sem brottvísun þeirra verður mótmælt.

„Við erum að enn að reyna að gera allt og munum reyna að gera allt sem við mögulega getum til að koma í veg fyrir það þetta. Þau eru búin að reyna nánast öll lagaleg úrræði sem standa hælisleitendum til boða á Íslandi. Hvort það verði einhver breyting þarna á, ég veit það ekki. Ég er ekki mjög bjartsýn á þessum tímapunkti. Það er hins vegar á hreinu að við munum ekki gefast upp. Við munum ekki hætta fyrr en við sjáum á eftir þeim upp í flugvél og munum jafnvel reyna að halda áfram eftir það,“ segir Sema.

Á leið upp í vél á næstu dögum

Eins og staðan er í dag verður Haniye send ásamt fötluðum föður sínum aftur til Þýskalands, þaðan sem þau komu, en í versta falli verða þau send til Afganistan. Haniye er fædd á flótta og því ríkisfangslaus. Hún fór tvisvar yfir Miðjarðarhafið á slöngubát í baráttunni fyrir lífi sínu og betri framtíð. Hún þjáist af alvarlegum andlegum veikindum sem hún þarf nauðsynlega aðstoð við að vinna úr og er því metin í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ af yfirvöldum.

Mary ásamt foreldrum sínum, Sunday og Joy.
Mary ásamt foreldrum sínum, Sunday og Joy. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er auðvitað ekki það hræðilegasta sem gæti gerst að þau verði send til Þýskalands, en það er gríðarlegur aðstöðumunur fyrir flóttafólk á Íslandi og í Þýskaland. Í lok síðasta árs voru til dæmis 430 þúsund umsóknir um hæli óafgreiddar í Þýskalandi. Þau fara bara í þá röð. Þau fara aftur í flóttamannabúðir, en þar fékk Haniye ekki að ganga í skóla. Hún var ein í flóttamannabúðunum á meðan faðir hennar var á spítala.“

Mary verður vísað úr landi og send til Nígeríu ásamt foreldrum sínum, Sunday og Joy, en líkt og Haniye er Mary fædd á flótta og hefur því aldrei búið í Nígeríu. Faðir hennar flúði pólitískar ofsóknir í landinu áður en hún fæddist og kynnist móður hennar á flótta. Joy var fórnarlamb mansals á Ítalíu, þar sem þau voru áður en þau komu til Íslands.

„Þessi ákvörðun er óásættanleg og það er hægt ekki taka þeirri ákvörðun þegjandi og hljóðalaust að það sé komið svona fram við börn sem eru í viðkvæmri stöðu,“ segir Sema. Hún er sár yfir því að ekkert hafi heyrst frá yfirvöldum vegna mála stúlknanna. „Það hryggir mig mjög að við höfum nánast ekki fengið nein viðbrögð frá yfirvöldum eða stjórnvöldum þessa síðustu daga sem vakin hefur verið athygli á stöðu þessara stúlkna. Við erum að tala um stúlkur sem eru á leið upp í vél á næstu dögum, þannig við erum í kappi við tímann.“

Gjá á milli almennings og yfirvalda

Þrátt fyrir að viðbrögð stjórnvalda hafi verið lítil sem engin, á það sama ekki við um almenning. Sema segir ljóst að fólki sé misboðið vegna þessarar ákvörðunar. Það endurspeglist meðal annars í umræðunni á samfélagsmiðlum og áhuganum á mótmælunum. „Viðbrögðin við þessari ákvörðun eru gríðarleg. Það er mikil reiði. Fólki er misboðið og er gríðarlega ósátt við að það sé verið að rífa þessar tvær ungu stúlkur út úr því öryggi og friði sem þær hafa fundið hér á landi.“

Yfir þúsund manns hafa skráð sig til mætingar á mótmælin á morgun, sem hefjast klukkan 15, og yfir tvöþúsund hafa sýnt honum áhuga. „Það er til marks um þessa reiði sem er í garð yfirvalda vegna þessarar ákvörðunar. Þetta sýnir skýrt þessa gjá sem er á milli yfirvalda, sem taka ákvarðanir í þessum málum, og almennings sem hefur aftur og aftur sýnt að hann vilji að það sé tekið betur á móti fólki á flótta. Að hér sé fórnarlömbum stríðs og átaka veitt vernd og skjól.

Hanyie Maleki og faðir hennar í afmælisveislunni á Klambratúni.
Hanyie Maleki og faðir hennar í afmælisveislunni á Klambratúni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Sema segir alþjóðasamfélagið vera að horfa upp á stöðu í málefnum flóttafólks sem við höfum aldrei upplifað áður. „Gríðarlegur mikill fjöldi þeirra sem eru á flótta eru börn og þau eru í mjög viðkvæmri stöðu sem börn. Að við skulum ekki standa vörð um réttindi og mannúð í kringum börnin er sorglegt. Við höfum öll tækifærin til þess.“

Hér fá þær tækifæri til að vera börn

Stúlkurnar báðar eiga marga velunnara hér á landi sem hafa myndað við þær tengsl, en skemmst er að minnast þess að um 300 manns mættu í afmælisveislu Haniye sem slegið var upp á Klambratúni í byrjun ágúst. „Þær eru búnar að vera hérna í langan tíma. Þær eiga vini og ganga í skóla. Mary gengur í skóla í fyrsta skipti á ævinni. Auðvitað misbýður fólki að það sé verið að fara að rjúfa þessi tengsl sem þær hafa myndað. Þetta eru börn sem hafa aldrei fengið að vera börn. Hér hafa þau hins vegar tækifæri til þess og það er óskiljanlegt að þær fái ekki það tækifæri, eins og önnur börn.“

Skipuleggjendur mótmælanna hafa fengið gott fólk í lið með sér til að flytja ræður, ljóð og tónlist. „Við ætlum að biðja fundinn að samþykja þá kröfu að yfirvöld falli frá fyrri ákvörðunum sínum um brottvísun þessara stúlkna og veiti þeim vernd á Íslandi. Ég trúi ekki öðru en að fundurinn samþykki þá kröfu,“ segir Sema að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert