Eldsneytisbrennsla og loftslagsbreytingar eru þeir mengunarþættir sem vega þyngst í framleiðslu á áfengum drykkjum. Notkun á glerumbúðum undir vín og bjór er heldur ekki jákvæð, þó það geti skipt máli hversu þungar glerflöskurnar eru. Nýi heimurinn stendur sig þó betur en sá gamli í þessum efnum og hafa framleiðendur þar sýnt sig mun meðvitaðri um umhverfisáhrifin af framleiðslunni.
Þetta segir Sigurpáll Ingibergsson, gæðastjóri ÁTVR, en norrænu áfengiseinkasölurnar sameinuðust árið 2014 um að láta útbúa vistferilsgreiningu á áfengum drykkjum. Tilgangur rannsóknarinnar var að skrá heildarumhverfisáhrif allra áfengistegunda sem eru í sölu hjá norrænu áfengiseinkasölunum.
Í vistferilsgreiningunni eru tilgreindir níu umhverfisáhrifaflokkar: áhrif á öndunarfæri (öndun ólífrænna og lífrænna efna), hnattræn hlýnun, upptaka náttúru, visteitrun í jörðu og vatni, ofauðgun í jörðu, ljósefnafræðilegt óson, ofauðgun í vatni, súrnun og vinnsla jarðefna.
Fæstir leiða væntanlega hugann að kolefnissporinu sem að vínglasið eða bjórflaskan sem þeir dreypa á skilur eftir sig og kemur væntanlega einhverjum á óvart hversu stórt hlutverk eldsneytisbrennslan leikur þar, jafnvel þó að áhrifaþættirnir vegi misjafnlega þungt eftir áfengisgerðum.
Þannig vegur landbúnaður og umbúðaframleiðsla þyngst í tilfelli léttvína og bjórs, þó að framleiðsla og geymsla séu einnig veigamiklir þættir varðandi bjórframleiðsluna. Framleiðsla og geymsla eru hins vegar áberandi þyngstu þættirnir hvað sterku drykkina varðar, þó að landbúnaður og umbúðaframleiðsla eigi þar einnig þátt að máli. Sigurpáll bendir á að raforkan sem notuð sé við framleiðsluna sé yfirleitt drifin áfram af jarðefnaeldsneyti á borð við kol og olíu sem hafi umtalsverð áhrif.
Þessi vistferilsgreining gerir starf ÁTVR markvissara að sögn Sigurpáls. „Þá vitum við hvar stærstu umhverfisáhrifin liggja og getum einbeitt okkur að stóra málinu, sem eru umbúðirnar og þá aðallega glerið,“ útskýrir hann. „Það sem við þurfum síðan að gera og munum vera að gera næstu árin er að upplýsa framleiðendur og svo neytendur.“
Áhrif glersins koma eflaust einhverjum á óvart, enda plastefni og ál meira verið í umræðunni. Sigurpáll segir að glerumbúðirnar væru vissulega mjög góðar, ef að þær væru endurnýttar. „Ég hef séð rannsóknir sem sýna að það þyrfti að nýta glerflöskuna 20 sinnum til þess að ná sömu umhverfisáhrifum og með fernur, plast- eða áldósir.“
Sigurpáll segir ríki á borð við Suður-Afríku og Ástralíu, vera farin að átta sig á þessum áhrifum og því séu ýmsir framleiðendur þar nú byrjaðir að nýta léttari glerflöskur og miði nú við að flöskur sem taka 750 ml vegi ekki meira en 420 g.
„Með því að minnka þyngd glersins þá þarf minna efni í framleiðsluna og minni orku til að búa flöskuna til, sem sömuleiðis verður léttari í flutningum,“ útskýrir hann. „Nýi heimurinn er meðvitaðri um þetta en sá gamli og við ætlum að fara að fylgjast með því hversu mikið af þeim flöskum sem eru í hvað mestri sölu munu koma til með að uppfylla þessi viðmið.“
Sigurpáll segir ákveðinn hóp íslenskra neytenda þegar vera meðvitaða um þetta. Þannig séu dæmi um að viðskiptavinir Vínbúðanna hafi sett sig í samband við starfsfólk eftir að hafa vegið vínflösku og komist að því að 750 ml flaska vegi jafnvel 1,5 kg. „Þegar fólk áttar sig á þessu þá hefur það jafnvel tilkynnt okkur að það ætli ekki að kaupa þetta vín framar.“
Spurður hvort ÁTVR hafi hug á að kynna betur hvaða vörur teljist umhverfisvænar, segir hann fyrirtækinu þeir annmarkar settir að það megi ekki hampa neinum einum frekar en öðrum út frá hlutleysissjónarmiðum. „Það sem við getum gert er að upplýsa, en síðan á neytandinn alltaf síðasta orðið. Við getum þó birt brúttóþyngd flöskunnar á vefsíðu okkar og þá getur neytandinn séð þetta þar.“
Sigurpáll bendir þó á að lífrænu vínin séu sérstaklega tilgreind í verslunum Vínbúðanna og að það sé stefna allra vínframleiðenda að vera komnir með lífræna framleiðslu árið 2030.
Forsvarsmenn ÁTVR hafa verið að rýna í skýrsluna frá því að hún kom út í sumar og verið er að útbúa samræmda áætlun fyrir næstu ár um það hvernig málinu verður fylgt eftir. Sigurpáll segir athyglinni þá einkum verða beint að þeim vörum sem seljast í hvað mestu magni, enda hafi þær hvað mest áhrif.
„Nokkur ríki, eins og til að mynda Kanada, hafa verið leiðandi í þessum efnum. Þeir hafa sett þá staðla að ódýrari vín, þ.e. vín sem kostar til að mynda undir 15-20 dollurum flaskan, megi ekki vera í flösku sem er þyngri en 420 g og þegar svona stórir aðilar fara af stað, þá hefur það áhrif á markaðinn.“