Brunahani á hálendinu vekur athygli

Brunahana hefur verið komið fyrir í Nýjadal á Sprengisandi. Enginn …
Brunahana hefur verið komið fyrir í Nýjadal á Sprengisandi. Enginn virðist vita hver kom honum fyrir en haninn hefur vakið kátínu á meðal göngugarpa á svæðinu. Ljósmynd/Róbert Kárason

Blár brunahani hefur blasið við fólki sem hefur verið á ferðinni í Nýjadal á Sprengisandi síðustu vikur. Enginn virðist vita hvaðan hann kemur eða hversu lengi brunahaninn hefur verið á svæðinu.

„Eina sem ég veit er að hann er ótengdur,“ segir Hjalti Björnsson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Hópur á vegum sveitarinnar sem var á hálendisvakt um miðjan ágúst urðu vör við brunahanann svo ljóst er að haninn hefur glatt gesti og gangandi í að minnsta kosti mánuð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem aðskotahlut í stærri kantinum er komið fyrir uppi á hálendi. Í ágúst 2010 var stöðumæli komið kirfi­lega fyr­ir rétt við vörðuna á toppi Hlöðufells í Árnes­sýslu.

Frétt mbl.is: Spaugarar settu upp stöðumæli á toppi Hlöðufells

Hjalti segir að það myndi alls ekki koma sér á óvart ef sömu spaugarar væru nú á ferð. 

Friðrik G. Kristjánsson var í hópi flugbjörgunarsveitarmanna sem rakst á brunahanann í síðasta mánuði. „Það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta væri gjörningur einhvers listamanns,“ segir hann í samtali við mbl.is. Að sögn Friðriks er brunahaninn pikkfastur og virðist ekki vera á förum í bráð. 

Ráðgátan um bláa brunahanann er því langt frá því að vera leyst. Mbl.is hvetur lesendur sem luma á upplýsingum að hafa samband við blaðamann.  

Félagar úr Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur urðu varir við brunahanann á dögunum.
Félagar úr Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur urðu varir við brunahanann á dögunum. Ljósmynd/FBSR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert