Framkvæmdir hefjast á næstu dögum við dýpkun Landeyjahafnar, en um helgina kom dæluskipið Galilei 2000 frá Belgíu, sem notað hefur verið til þeirra verka, til Eyja.
Vegna sandburðar hefur þurft að dæla út sandi í innsiglingarrennu og kjafti hafnarinnar mjög reglulega. Þykir skipið henta vel til þess verks sem sinna þarf haust og vor.
„Við eigum allt undir því að höfnin í Landeyjum sé opin sem lengst fram á haustið. Það er misjafnt hvenær höfnin lokast – og opnast svo að vori, en í ár var það snemma í mars,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið.