Árið 2014 var 68% skólps frá þéttbýlum hreinsað með eins þrepshreinsun, tvö% með tveggja þrepa og eitt% með frekari hreinsun en tveggja þrepa. Aftur á móti var 24% skólpsins ekkert hreinsað og ekki er vitað hvernig 5% þess var hreinsað eða hvort það hefði yfirleitt fengið nokkra hreinsun.
Annars staðar á landinu skortir t.d. hreinsun á öllum stærri fráveitum (með yfir 2.000 p.e.) í þéttbýli á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra en uppfærðar upplýsingar vantar um stöðu á hreinsun skólps á Vesturlandi. Þetta kemur fram í samantekt um stöðu fráveitumála á Íslandi árið 2014 sem Umhverfisstofnun vann.
Af því skólpi sem myndaðist í þéttbýli á landinu var 94% losað í sjó, 5% í ár og stöðuvötn og 1% í ármynni eða grunnvatn. Af því skólpi sem var talið hreinsað með eins þreps hreinsun var um 84% hreinsað í sameiginlegum hreinsistöðvum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við Ánanaust og Klettagarða. Um er að ræða tæplega 60% þess skólps sem verður til í landinu. Segir jafnframt í skýrslunni.
„Niðurstöður skýrslunnar benda til að fremur litlu hafi verið áorkað í fráveitumálum síðan síðasta stöðuskýrsla var gefin út árið 2010 og mikið hafi vantað upp á að ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp væru uppfyllt. Það fyrirkomulag sem stuðst er við í dag hefur ekki skilað þeim tilætlaða árangri sem krafist er í lögum og reglugerðum.“ Þetta kemur fram í skýrslunni.
Hreinsistöðvar sinna ekki nægilega reglubundnu eftirliti. Rétt framkvæmd sýnataka og nægilegur fjöldi mælinga er nauðsynlegur til að skera úr um hvort tiltekin hreinsistöð nær þeim árangri sem að var stefnt.
„Samantektin leiddi í ljós að losunarmælingar voru almennt ekki gerðar í samræmi við kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp og því erfitt að draga ályktanir um hvort hreinsivirki séu í raun að skila þeim árangri sem þeim var ætlað.“ Í samantekinni er vísað til nýlegrar skýrslu sem unnin var fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sem er m.a. rekstraraðili tveggja helstu hreinsistöðva á höfuðborgarsvæðinu. Í henni kemur fram að mælingar í hreinsistöðvunum við Ánanaust og Klettagarða eru ekki jafn tíðar og ákvæði reglugerðar mæla fyrir um.
Uppfært kl 17:35: Eftir að skýrslan og fréttin voru birt vilja Veitur koma því á framfæri að ekki séu um að ræða aðeins fjögur sýni sem tekin voru á ári, heldur hefði verið farið í fjórar ferðir til að taka sýni og samtals meira en 50 sýni tekin í þau skipti.
Í skýrslunni eru bent á úrbætur sem þyrfti að fara í. Það eru meðal annars bent á að skýra þurfi ábyrgðarskiptingu milli sveitarfélaga sem rekstraraðila fráveitna, fyrirtækja, heimila í dreifbýli og eftirlitsaðila þ.e. heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.
Einnig verður farið í átak í því að að fá sveitarfélög til að sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Tryggt verði að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi þar sem þau eru ekki fyrir hendi og að starfsleyfishafi sinni innra eftirliti og eftir atvikum vöktun viðtaka. „Ef með þarf beiti heilbrigðisnefndir þvingunarúrræðum til að tryggja að aðilar uppfylli skyldur sínar.“ segir ennfremur.
Í skýrslunni kemur fram að flutningsaðilar og móttöku- og meðferðaraðilar seyru virðast ekki allir hafa haft starfsleyfi heilbrigðisnefnda auk þess sem aðeins 10% safnræsa og 21% hreinsistöðva höfðu starfsleyfi.