Komið var með 363 lundapysjur í vigtun í Sæheima í Vestmannaeyjar í gær, en þar með er heimsmetið frá árinu 2015 fallið, en alls hafa nú 3896 pysjur hafa verið vigtaðar í ár að því er segir á vef Eyjafrétta.
Mbl.is greindi frá því um helgina að það stefndi í að metið frá 2015 yrði slegið. „Þetta er aðeins að minnka en það er hellingur að gerast ennþá. Ég reikna með að þetta gæti staðið fram í miðjan október,“ var haft eftir Erpi Snæ Hansen hjá Náttúrufræðistofu Suðurlands.
Í Vestmannaeyjum er hefð fyrir því að börn komi pysjunum til bjargar, setji þær í pappakassa og sleppi þeim síðan í sjóinn næsta dag. Pysjurnar, sem hafa ekki fyllilega náð taki á fluginu, eiga á hættu að verða köttum, bílum eða mönnum að bráð eða deyja úr hungri í bænum.
Á vef Eyjafrétta segir að enn sé að finnast hellingur af pysjum, þannig að spennandi verði að sjá hver lokatalan verði.