Almennt öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar felst fyrst og fremst í að gera viðkomandi stjórnvöldum og björgunarsveitum kleift að bregðast hratt og áreiðanlega við aðstæðum sem borgurum og jafnvel þjóðfélaginu í heils stafar ógn af. Þetta eru megin niðurstöður skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri og prófessor emeritus við Háskólann í Reykjavík, vann fyrir ráðuneytið.
Þorgeir kynnti skýrsluna í dag ásamt Jóni Gunnarssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrr í dag. Skýrslan er sú 127. í röðinni frá árinu 1961 sem fjallar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.
Jón telur nauðsynlegt að fjalla um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar með tilliti til þeirra vinnu sem fram undan er við mögulegan flutning innanlandsflugs frá Reykjavíkurflugvelli. „Þetta er í fyrsta skipti í allri þessari vinnu sem hefur farið í kringum Reykjavíkurflugvöll sem það er dregið fram mjög skýrt hversu víðtækt og mikilvæg hlutverk flugvallarins er út frá öryggishagsmunum í okkar samfélagi. Það þarf að vanda til verka, þetta er ekki ákvörðun sem hægt er að hlaupa að,“ segir Jón í samtali við mbl.is.
Í skýrslunni leggur Þorgeir mat á öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar og metur hann hvernig og hversu vel núverandi staðsetning og aðrar mögulegar staðsetningar flugvallar fyrir höfuðborgarsvæðið myndu uppfylla þetta hlutverk.
Þorgeir lagði áherslu á samfélagslegt öryggi flugvallarins í máli sínu, það er almennt öryggi landsmanna og almannavarnir, og setti hann þessa þætti í samhengi við meginhlutverk Reykjavíkurflugvallar að vera miðstöð innanlandsflugsins.
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur einnig fram að öryggi þjóðfélagsins og flugöryggi gera það að verkum að tveir flugvellir verða að vera á Suðvesturlandi. Reykjavíkurflugvöllur uppfyllir hlutverk sitt sem alhliða öryggisflugvöllur afar vel og Hvassahraun er í raun eini hugsanlegi annar kostur en Reykjavíkurflugvöllur í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, að mati Þorgeirs. Áður en hægt sé að lýsa því yfir að flugvöllur í Hvassahrauni sé raunhæfur kostur sem innanlandsflugvöllur er þó þörf á miklum undirbúningi.
Þá segir Þorgeir að tryggja verði rekstur Reykjavíkurflugvallar á meðan nýjum flugvelli til að taka við hlutverki hans hefur ekki verið fundinn staður og hann byggður.
Jón kynnti skipan nýs starfshóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar í dag. Hann telur mikla undirbúningsvinnu fram undan áður en hægt verði að taka málefnalega ákvörðun um framtíð flugvallarins. „Það er mikilvægt að um miðstöð innanlandsflug í landinu séu ekki háværar deilur sem geta skaðað starfsemina. Þetta er hluti af okkar samfélagi og við verðum að hafa alvöru miðstöð innanlandsflugs í landinu.“
Frétt mbl.is: Borgarstjóri í nýjum starfshóp um Reykjavíkurflugvöll
„Ég tel að það sé tímabært að við stöldrum við og skoðum þetta af heilum hug. Ég útiloka ekki að það geti orðið flutningur á starfsemi innanlandsflugsins í framtíðinni, en það þarf þá að vera ákvörðun sem tekin verður af mjög ígrunduðu máli,“ segir Jón. Nýskipaður starfshópur tekur til starfa á næstu dögum og býst Jón við að hópurinn muni skila tillögum sínum um mitt næsta ár.