Arion banki, sem fer með ráðandi eignarhlut í United Silicon, íhugar nú að leita réttar síns vegna gruns um auðgunarbrot og skjalafals Magnúsar Garðarssonar. Lífeyrissjóðirnir sem eiga hlut í fyrirtækinu eru á sömu blaðsíðu. RÚV greinir frá þessu.
Magnús er stofnandi og fyrrverandi forstjóri félagsins. Í tilkynningu frá stjórn United Silicon í gær kom fram að stjórnin hefði kært Magnús til héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot. Hann er grunaður um að hafa dregið sér rúman hálfan milljarð króna frá stofnun United Silicon, meðal annars með því að senda út tilhæfulausa reikninga sem litu út fyrir að vera uppgreiðsla á verksamningi.
Magnúsi hætti afskiptum af félaginu í mars á þessu ári en allt hefur gengið á afturfótunum í rekstri verksmiðjunnar. Umhverfisstofnun ákvað þann 1. september á þessu ári að stöðva starfsemi verksmiðjunnar sem fyrir vikið er óheimilt að endurræsa ofna nema með skriflegri heimild að loknum fullnægjandi endurbótum. United Silicon er í greiðslustöðvun.
Í frétt RÚV er haft eftir Gylfa Jónassyni, framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Festu, að sjóðirnir muni sækja allan þann rétt sem þeir geti sótt. Málið sé „ekkert annað en sjokk“.
Ekki hefur náðst í Magnús Garðarsson frá því málið kom upp.
Uppfært: Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að málið sé komið inn á borð embættisins. Það sé nú í hefðbundinni skoðun. Spurður hvort fleiri en ein kæra hafi borist vegna málsins, segir hann að svo sé ekki.