Brottvísun frestað í máli Haniye

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir útlendingalöggjöfina vera í stöðugri endurskoðun.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir útlendingalöggjöfina vera í stöðugri endurskoðun. mbl.is/Eggert

Brottvísun afgönsku feðginanna, Abra­him og Hanyie Maleki, verður væntanlega frestað frameftir septembermánuði. Þetta segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. Greint var frá því í gær að embætti rík­is­lög­reglu­stjóra hefði farið þess á leit við Útlend­inga­stofn­un að brott­vís­un yrði frestað og segir ráðherra það gert af því að málsaðilar séu að nýta sér lögbundna heimild í lögum til að óska eftir frestun.

„Nú er verið að nýta síðasta úrræðið í málinu, sem er sjálfsagt að menn nýti sér, og það er að óska eftir frestun í því augnamiði að bera málið mögulega undir dómstóla,“ segir Sigríður. „Þessari tilteknu brottvísun verður því frestað eitthvað fram eftir september til að gefa kærunefndinni kost á að skoða þetta miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið. Þetta er allt lögum samkvæmt og ágætt að menn fái þá færi á að skoða málið betur.“

Þarf að skýra og skerpa útlendingalöggjöfina

Greint var frá því í gær að þingflokkur Bjartrar framtíðar hyggist leggja fram frumvarp um breytingu á ítlendingalöggjöfinni sem snúi fyrst og fremst að stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu.

„Ég hef alltaf sagt við þingmenn sem eru í þeirri stöðu að telja brotalöm á löggjöf að þeim sé í sjálfsvald sett að leggja fram frumvörp ef þeir telja það málinu til framdráttar, en ég hef líka boðið þeim að koma að máli við mig um breytingar á hvaða lögum sem er,“ segir Sigríður.

þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára verða að …
þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára verða að óbreyttu sendar úr landi. Samsett mynd

Þetta eigi við um útlendingalöggjöfina eins og önnur lög. Löggjöfin sé nýsamþykkt en það liggi fyrir að hún hafi verið í stöðugri endurskoðun. „Menn hafa rekið sig á í framkvæmd að það þarf að skýra og skerpa á löggjöfinni og ég hef upplýst þingmenn um að sú vinna sé í gangi.“ Sigríður kveðst munu leggja fram breytingar á útlendingalöggjöfinni á næstu vikum og hún hafi hvatt menn til að koma til sín  ábendingum vegna þessa. „Hvort að ég geti fallist á þær tillögur og gert að mínum og ríkisstjórnarinnar á eftir að koma í ljós.“

Tilfinningalega erfitt fyrir marga þingmenn

Sigríður segir nokkra þingmenn hafa sett sig í samband við sig vegna máls þeirra Haniye og nígerísku stúlkunnar Mary og fjölskyldu hennar. „Ég heyri að þetta er tilfinningalega mjög erfitt fyrir marga þingmenn, en ég heyri samt líka á þeim að þeir átta sig alveg á því hvernig löggjöfin er og þeir átta sig á þeim sjónarmiðum sem þurfa að gilda hérna í stjórnsýslunni um jafnræði aðila. Þeir þingmenn sem ég hef rætt við hafa heldur ekki verið þeirrar skoðunar að það eigi að afgreiða mál einstaklinga inni á þinginu.“ Sigríður hefur sjálf tjáð sig um að hún telji ekki gæfulegt ef stjórnsýslan færist inn á borð löggjafans.

Spurð hvort hún telji ástæðu til að skerpa eitthvað á löggjöfinni út frá málum þeirra Haniye og Mary, segir Sigríður:  „Það eru alveg örugglega eitthvað sem er ástæða til að skerpa á varðandi þessi mál almennt í framtíðinni.“

Því sé hins vegar fjarri að mál eins og þessi séu afgreidd með vélrænum hætti. „Svo nefnd Dyflinarmál hafa til dæmis verið færð í efnismeðferð hér á landi og það er gert eingöngu með hliðsjón af því að um er að ræða börn eða einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Það kann að vera að það þurfi að skerpa á einhverjum skilgreiningum til að hjálpa stjórnsýslunni að geta lagt fyrr mat á stöðu manna,“ útskýrir hún.

„Við eigum líka stöðugt samtal við Útlendingastofnun og fylgjumst með hvernig kærunefndin túlkar úrskurði og ákvarðanir Útlendingastofnunar. Það verður að vera trúverðugleiki í afgreiðslu allra mála. Það er hins vegar eðlilegt að verið sé að skerpa á svo umfangsmikilli löggjöf, en það þarf að gera það eftir leiðum réttarríkisins og þá er til ýmissa sjónarhorna að líta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert