„Ég hef því miður misst trúna á íslenskt réttarkerfi, ég hef misst trúna á dómstóla landsins.“ Þetta segir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, í viðtali við Sky news. Í miðlinum er fjallað um þá staðreynd að helstu stjórnendur bankanna fyrir hrun hafi á Íslandi verið dæmdir til fangelsisvistar, á meðan hafi ekki verið raunin í Bretlandi.
Frétt mbl.is: Bjarni: Það verður annað bankahrun
Í fréttinni er greint frá því að allmargir íslenskir bankamenn hafi hlotið refsidóma fyrir gjörðir sínar í aðdraganda hrunsins. Rætt er við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara sem segja að Bretar hefðu átt að efna til rannsókna á því hvort menn hafi gerst brotlegir við lög í aðdraganda hrunsins.
Fram kemur í frétt Sky að nokkrir af þeim sem dæmdir hafa verið fyrir þátt sinn í bankahruninu hafi leitað á náðir Mannréttindadómstóls Evrópu. Þeirra á meðal er Sigurður Einarsson, sem fékk fjögurra ára fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða og eins árs hegningarauka í máli sem varðaði markaðsmisnotkun Kaupþings.
Haft er eftir Sigurði í frétt Sky að hann telji að hann hafi verið dæmdur án sannana. „Ég var dæmdur án minnstu sannana – í tvígang.“ Hann segist hafa verið dæmdur vegna þeirrar tilfinningar í samfélaginu að hrunið væri bankamönnum að kenna. „Fólk þurfti að kenna einhverjum um. Í raun fékk saksóknarinn þær fyrirskipanir frá stjórnmálamönnum að hann ætti að ná bankamönnunum. Þeir breyttu lögunum afturvirkt. Kerfið var spillt.“