Mun gerbreyta umferðinni

Kort/mbl.is

„Þetta mun valda verulegu raski á allri umferð, en lokunin mun m.a. leiða til þess að allar aðrar leiðir teppast einnig. Það verður því mjög þröngt og erfitt að komast um borgina, sérstaklega á háannatímum,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við Morgunblaðið.

Vísar hann til þess að í dag, 12. september, hefjast framkvæmdir á Kringlumýrarbraut í Reykjavík og munu þá starfsmenn Veitna endurnýja stofnlögn kalds vatns frá lokahúsi við Stigahlíð og yfir Kringlumýrarbraut. Meðan á þessu stendur verður verulega þrengt að umferð með tilheyrandi töfum, en áætlað er að ljúka framkvæmdunum 26. september næstkomandi.

Engar leiðir góðar

Í tilkynningu frá Veitum kemur m.a. fram að ökumönnum á þessari leið sé bent á að gera ráð fyrir auknum ferðatíma og „fara aðrar leiðir sé þess kostur“. Spurður hvort lögreglan geti mælt með öðrum og betri leiðum kveður Ásgeir Þór nei við.

„Álagið mun aukast á allar aðrar leiðir þegar ökumenn reyna að komast leiðar sinnar. Það eina sem við getum gert er að hvetja fólk til þess að fara fyrr af stað og forðast þessa hefðbundnu álagstíma, en það eru nú ekkert endilega svo margir sem geta það,“ segir hann og bætir við að viðbragðsaðilar þurfi að treysta á samvinnu við ökumenn svo tryggja megi akstur neyðarbíla. „Við getum gripið til bifhjóla en slökkviliðið getur ekki sinnt sínum verkefnum á hjólum.“

Vonandi unnið af krafti

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir framkvæmdirnar „stórt inngrip“, sérstaklega nú þegar umferðin er farin að þyngjast.

„Við höfum auðvitað áhyggjur af því þegar svona stór stofnbraut dettur út. Það gerbreytir öllu umferðarmynstri í borginni,“ segir Jón Viðar, en upphaflega stóð til að vinna verkið að sumri til þegar umferð er minni í borginni. September er hins vegar, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, sá mánuður þar sem umferð um helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins er mest.

„Ég vona að menn ætli sér að vinna þetta af miklum krafti og helst á vöktum,“ segir Jón Viðar.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, tekur undir með slökkviliðsstjóra og segir „eðlilegra“ að vinna verk sem þetta á sumrin. „Það er eðlilegast að gera þetta þegar umferðin er minnst,“ segir hann og bætir við að Vegagerðin hafi því áhyggjur af miklu raski.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, hvetur ökumenn til að sýna þolinmæði og biðlund. „Við munum vinna þetta eins hratt og okkur er mögulegt og vonumst til að þetta takist vel í samvinnu við alla aðila,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert