Sigurbjörn sigursæll

Sigurbjörn Bárðarson á Hrafni frá Breiðholti í Flóa en þeir …
Sigurbjörn Bárðarson á Hrafni frá Breiðholti í Flóa en þeir sigruðu B-flokkinn á nýliðnu metamóti Spretts. mbl.is

Keppnisárinu lauk með glæsibrag hjá hinum reynda knapa Sigurbirni Bárðarsyni þegar hann vann fjórar af sex greinum á metamóti hestamannafélagsins Spretts sem fór fram um næstsíðustu helgi. Nokkrum dögum síðar gerði hann sér svo lítið fyrir og sigraði í 100 og 250 metra skeiði á skeiðleikunum og varð í þriðja sæti í 150 metra skeiði.

„Metamótið er með allra stærstu mótum og þar koma allir bestu hestar og knapar landsins saman. Það hefur oft verið á brattann að sækja þar en mér gekk mjög vel núna,“ segir Sigurbjörn, sem vann A-flokk á Nagla frá Flagbjarnarholti, B-flokk á Hrafni frá Breiðholti í Flóa, 100 metra skeið og 250 metra skeið á Vökli frá Tunguhálsi og varð þriðji og fimmti í 150 metra skeiði. „Ég var reyndar í úrslitum í tölti líka en dró mig út því ég var með sama hest og í B-flokki og vildi spara hann.“

Sigurbjörn segir það alltaf vera markmiðið að sigra. „Ég var með góð hross og að sjálfsögðu setja keppnismenn sér það markmið að reyna að vinna en síðan verður bara að spyrja að leikslokum.“

Kvaddi tvo kraftmikla öldunga

Sigurbjörn er 65 ára og keppir við sér mun yngri knapa, og það gerir sigurinn enn sætari að hans sögn. Hann er búinn að vera á keppnisbrautinni í 50 ár. „Ég hef lært rosalega mikið á þessum tíma en það skrítna við þetta allt saman er að manni finnst maður eiga eftir að læra heilan helling ennþá, það safnast stanslaust í reynslubankann.“

Sigurbjörn situr á Flosa frá Keldudal f. 1995, sá dekkri …
Sigurbjörn situr á Flosa frá Keldudal f. 1995, sá dekkri er Óðinn frá Búðardal f. 1993.

Á metamótinu keppti Sigurbjörn á tveimur öldungum í 150 metra skeiði; Óðni frá Búðardal, sem er 24 vetra, og Flosa frá Keldudal, 23 vetra. „Ég var að kveðja þá á þessu móti, þetta var þeirra síðasta keppni. Óðinn er búinn að vera í 18 ár á keppnisbrautinni og eini hesturinn í Íslandssögunni sem hefur átt heimsmet í öllum skeiðgreinum,“ segir Sigurbjörn en hann náði 5. sæti á Óðni og 3. sæti á Flosa. „Þeir þutu út úr startboxunum eins og ekkert væri, fullir af orku og áhuga.“

Elsti hestur sem Sigurbjörn hefur keppt á var 26 vetra. „Það skiptir svo miklu máli að passa vel upp á þessa stráka; að þeir hafi gaman af þessu og maður fari aldrei í botn á getu heldur að þeir hafi á tilfinningunni að þeir geti meira að loknu hverju móti.“

Landsmót er á næsta ári og stefnir Sigurbjörn ótrauður á það. „Þetta góða gengi gaf mér byr í seglin. Ég er með einstaka hesta og markið er sett með þá á landsmót. Nagli og Hrafn eru tilbúnir að blómstra og síðan eignaðist ég nýjan skeiðhest sem heitir Vökull og virðist vera mikið stjörnuefni. Nú hlakkar maður bara til næstu vertíðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert