Bjarni: Það verður önnur bankakreppa

Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spáir öðru bankahruni í viðtali við Sky news. „Það verður önnur bankakreppa í framtíðinni,“ segir hann. Hann segist ekki geta sagt til um hvenær það verði. „Manneskjur gera mistök og græðgi mun leiða fólk til slæmra ákvarðana. Það mun gerast aftur,“ segir hann.

Í frétt Sky er fjallað um þá staðreynd að íslenskt dómskerfi hefur dæmt marga af lykilstjórnendum íslensku bankanna fyrir hrun til fangelsisvistar fyrir lögbrot í aðdraganda hrunsins. Ísland sé eina landið sem þá leið hafi farið. Útgangspunkturinn í frétt Sky eru ummæli Bjarna – og raunar Ólafs Haukssonar héraðssaksóknara einnig – að Bretar hefðu átt að taka harðar á breskum bankamönnum.

Stjórnvöld græddu sárin

Haft er eftir Bjarna í fréttinni að íslenskum stjórnvöldum hafi frá hruni tekist að græða sárin; afleiðingar efnahagshrunsins. Hann sé hins vegar hissa á því að Bretar hafi ekki farið að fordæmi Íslendinga. „Ég held að öðrum þjóðum gremjist að hlutirnir hafi ekki í það minnsta verið rannsakaðir.“

Hann segir að ekki hafi verið ástæða til að sækja alla sem komu að málum til saka í öðrum löndum en að honum finnist of lítið hafa verið gert til að rannsaka meinta brotlega háttsemi.

Hélt að Bretar myndu gera meira

Fram kemur í fréttinni að Ólafur Þór Hauksson hafi meðal annars fundað með breskum saksóknurum á árunum eftir hrun. Hann undrist, eins og Bjarni, að Bretar hafi ekki farið svipaða leið og Íslendingar og segir að líklega hafi skort pólitískan vilja. „Ég hélt að Bretar myndu gera meira. En breskar stofnanir hefðu þurft rýmri fjárheimildir til að geta gert það. Ef til vill var þetta meira í höndum stjórnmálamanna, þeirra sem héldu utan um ríkisfjármálin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert