„Verðum að læra af biturri reynslu“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti Alþingi.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvatti þingmenn til að endurskoða lög um uppreist æru í ávarpi við setningu Alþingis. Hann benti á ríka kröfu almennings í þeim efnum og vísaði til þess að dæmdir kynferðisbrotamenn hafi fengið fyrr í sumar uppreist æru. „Við verðum að læra af biturri reynslu,“ sagði Guðni.

Í því samhengi benti hann á að skilgreina þurfi betur í stjórnarskrá völd og ábyrgð forseta Íslands. 

Hann sagði að lögin um uppreist æru væru orðin úrelt og því þyrfti að endurskoða þau. „Fyrr í sumar brugðust margir ókvæða við þegar dæmdir kynferðisbrotamenn fengu uppreist æru. Engu skiptir þó stuðst hafi verið við lög,“ sagði Guðni. 

Hann benti á að fæstir tengdu við að orðalagið í lögunum um uppreist æru tengdist borgaralegum réttindum heldur mun frekar ærunni sjálfri og væri villandi fyrir vikið. Þegar búið væri að endurskoða lögin „þá verður heiðurinn þeirra sem var brotið á og neituðu að bera harm sinn í hljóði,” sagði Guðni og tók fram að fólk ætti að láta í sér heyra í lýðræðissamfélagi.   

Ábyrgðin skiptir máli í samfélaginu, sagði Guðni og vék að ákvæðum um forseta í stjórnarskránni sem segir að hann er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Ráðherrar framkvæma vald forseta og bera þeir ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Hins vegar bæri forsetinn ábyrgð gagnvart fólkinu í landinu sem kaus hann og ekki síst bæri hann ábyrgð gagnvart eigin samvisku. Af því sögðu bæri hann skyldu til að færa mál til betri vegar þegar því verður við komið. „Við óbreytt ástand verður ekki unað. Eftir óbreyttu verklagi verður ekki unnið.“

Hann benti á að stjórnarskrá Íslands þyrfti að vaxa og þróast eins og samfélagið og í henni þyrftu að vera t.d. ákvæði um umhverfisvernd, þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur. „Stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi forseta, sem felur samt í sér formlega staðfestingu á ákvörðunum annarra, samræmist ekki réttarvitund fólks og á ekki heima í stjórnsýslu samtímans,“ sagði Guðni.

Hann hvatti jafnframt þingmenn til að vinna saman að málefnum lands og þjóðar að endingu.

Hér má sjá ræðuna í heild sinni.  

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert