Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem var kynnt í morgun er gert ráð fyrir að skuldir ríkisins lækki um 36 milljarða á næsta ári og verði 859 milljarðar í lok ársins. Nettó skuldahlutfall ríkissjóðs verður með þessu 26,7% af landsframleiðslu og skuldir á hvern íbúa 2,6 milljónir.
Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru þó áfram mjög umfangsmikill liður á útgjaldahliðinni en áætlað er að þær muni nema um 73 milljörðum á næsta ári að meðtöldum reiknuðum vöxtum vegna lífeyrisskuldbindinga sem nema 14 milljörðum.
Samkvæmt lögum um opinber fjármál eiga skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga að vera undir 30% af landsframleiðslu og stefnt er að því að það náist árið 2019, en skuldir sveitarfélaga halda þessu hlutfalli enn yfir 30%.
Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað mikið undanfarin ár og voru til að nefna um 1.450 milljarðar árið 2011. Í upphafi árs 2016 voru skuldirnar komnar niður í rúmlega 1.100 milljarða og á þessu ári hafa þær lækkað um 200 milljarða og standa í um 900 milljörðum.
Benedikt sagði á kynningarfundi með fjölmiðlum í morgun að ef bankarnir væru seldir væru skuldir ríkissjóðs ekki nema um 100 milljarðar. „Við erum í mjög öfundsverðri stöðu,“ sagði hann og bætti við að vandinn núna væri að verja þá góðu stöðu sem væri uppi og það væri hlutverk ríkisstjórnarinnar að einbeita sér að því.