Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á hádegisfundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Valhöll það vera stórkostlegt afrek að geta hækkað greiðslur til ellilífeyrisþega í 300 þúsund krónur á mánuði.
Í því samhengi horfði hann til þess hve stutt er síðan fjármagnshöft voru við lýði hér á landi, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi haft hér mikil áhrif og að leita þurfti fjármagnsaðstoðar til útlanda. „Ég er stoltur af breytingunni sem felst í því að þetta sama fólk hafði einungis 225 þúsund fyrir tveimur árum. Þetta eru einhverjar mestu framfarir sem hafa orðið á þessu sviði en við erum ekki búin. Við ætlum að halda áfram á þessari braut," sagði Bjarni.
Hann ræddi einnig um fjárlögin og sagði það sjónarmið vera „rangt“ að 44 milljarða heildarafgangur af fjárlögunum sé of mikið. „Ég held að heildarafgangur ríkisins sé eðlilegur miðað við hvar við erum stödd í hagsveiflunni."
Bjarni benti á að gæta þurfi vel að því að fjármagna og byggja upp innviði grunnþjónustunnar. Það starf sé „ofboðslega fjárfrekt“. Fylgjast þurfi með því að fjármagnið skili sér í jöfnu aðgengi allra landsmanna að grunnheilbrigðisþjónustu, auk þess mikið átak þurfi að gera í samgöngumálum sem að hans mati hafi orðið „dálítið útundan“, sem sé „alvarlegt mál.“
Bjarni ræddi nýútkomna skýrslu hagdeildar ASÍ þar sem kemur fram að skattbyrði launafólks á árunum 1998 til 2016 hefur aukist.
„Skattbyrðin segir ákveðna sögu en hún segir ekki alla söguna um það hvernig fólk hefur það,“ sagði Bjarni, sem vildi frekar horfa á ráðstöfunartekjur einstaka tekjuhópa og hvernig þær hafa breyst. Hann benti á að ráðstöfunartekjur allra hópa hafi hækkað um um það bil þriðjung frá árinu 1998 til 2016. Skattprósentur hafi lækkað, bætur hækkað og lágmarkstekjutrygging hækkað verulega frá árinu 2013. Breytingarnar hafi orðið hlutfallslega meiri hjá tekjulægri hópunum.
„Það er vissulega hægt að komast að þeirri niðurstöðu að skattbyrði tekjuhópanna hefur vaxið en það breytir ekki þeirri staðreynd að fólk hefur mun meira á milli handanna árið 2016 en það gerði árið 1998.“
Bjarni talaði um bréf sem hann sendi frá sér fyrir kosningarnar árið 2013 og tók fram að flokkurinn hafi staðið við öll þau loforð sem komu þar fram, þrátt fyrir að hann heyri það enn í umræðunni að við þau hafi ekki verið staðið.
Í bréfinu er lögð áhersla þá að allir þeir sem eru komnir á efri ár njóti afraksturs erfiðisins. Meðal annars er sagt að kjaraskerðing ellilífeyrisþega frá árinu 2009 skuli afnumin.
Bjarni greindi frá því að í júlí 2013 hafi verið ákveðið að lífeyrissjóðstekjur hefðu ekki lengur áhrif á grunnlífeyri almannatrygginga. Síðar hafi frítekjumark fjármagnstekjuskatts hækkað. Sagðist hann þó sjálfur hafa viljað ganga lengra í að lækka fjármagnstekjuskattinn.
„Það er hægt að taka hvern og einn af þessum liðum og rekja hann skref fyrir skref hvernig við kláruðum hvert einasta atriði.“
Bjarni sýndi gestum í Valhöll glæru sem sýndi greiðslur til ellilífeyrisþega þar sem á stóð:
„Um næstu áramátt munu greiðslur til ellilífeyrisþega frá Tryggingastofnun ná 300 þúsund krónum á mánuði.
Árið 2015 var þessi sama greiðsla 225 þúsund krónur.
Á föstuverðlagi er þetta 25% hækkun á einungis þremur árum.
Ríkisstjórnin hefur sett í forgang að draga draga á ný úr skerðingu vegna atvinnutekna.“
Varðandi frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega sagði hann að ríkisstjórnin hafi einsett sér að markið verði 100 þúsund krónur á nýjan leik. Hann kvaðst samt vilja horfa fyrst til þeirra sem eru í mestri neyð varðandi frítekjumarkið.
Bjarni sagðist sammála kröfunni um að draga skuli úr skerðingu atvinnutekna en tók fram að um sé að ræða kröfu um breytingu fyrir þá sem geta unnið. Breytingin gagnist ekki þeim sem ekkert geta unnið.
Hann lagði jafnframt áherslu á að almannatryggingakerfið sé öryggisnet en ekki réttindakerfi. Lífeyriskerfið sé það aftur á móti.
Einnig nefndi Bjarni að nýtt greiðsluþátttökukerfi eigi að koma í veg fyrir að fólk sitji uppi með jafnvel milljóna reikninga vegna alvarlegra veikinda.