„Íslandsmet í nýjum sköttum á eldsneyti“

Runólfur er framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Honum hugnast ekki skattahækkanir …
Runólfur er framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Honum hugnast ekki skattahækkanir á eldsneyti. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég man ekki þá tíð að stjórnvöld hafi á einu bretti hækkað skatta á eldsneyti jafnmikið og nú er verið að boða,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í samtali við mbl.is.

Í gær kynnti Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlaði að hækka olíu- og bensíngjald. Runólfur bendir á að að viðbættum virðisaukaskatti nemi hækkunin á dísilolíu 21 krónu á lítra en lítrinn af bensíni mun hækka um níu krónur. „Ef við tökum bara venjulega notkun þá getur þetta verið aukin útgjöld um 30 til 60 þúsund krónur fyrir hverja fjölskyldu, sem á einn bíl. Vegna slíkra útgjalda þarf að vinna sér inn um það bil 50 til 90 þúsund krónur í tekjur til að eiga fyrir hækkuninni.“

Ísland í einu af toppsætunum

Runólfur segir að álög ríkisins á eldsneyti hafi verið með því sem hæst gerist, þegar horft er til Evrópuríkja. Nú tylli Ísland sér í eitt af toppsætunum. Hann bendir á að fylgifiskur þessarar hækkunar sé hækkun á vísitölu neysluverðs. „Eldsneyti vegur mjög þungt í vísitölunni. Áhrifin af þessu verða þannig enn meiri,“ segir hann.

Hann bendir á að þegar virðisaukaskatturinn sé tekinn í dæmið nemi áætluð aukin innkoma í ríkissjóð, af auknum álögum á eldsneyti, sex milljörðum króna. Taka má fram að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi. Tekjur ríkissjóðs af eldsneyti aukist um 17,7% á milli ára. „Þetta er gríðarlega mikil viðbót.“ Hann bendir á að tekjurnar eigi, samkvæmt frumvarpinu, ekki að renna til uppbyggingar á samgöngum.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið á fundi í gær.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið á fundi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýir dísilbílar menga minna

Runólfur segir að með boðaðri hækkun komi stjórnvöld aftan að bifreiðaeigendum, því stutt sé síðan fólk var hvatt til að kaupa frekar dísilbíla. Skemmst er að minnast þess að um síðustu áramót hækkuðu skattar á hvern bensínlítra (4,9 kr.) meira en skattar á hvern lítra af dísilolíu (3,7 kr.). Því má segja að stjórnvöld hafi hvatt til kaupa á dísilbílum umfram bensínbíla.

Runólfur bendir í þessu samhengi á að nýir dísilbílar uppfylli staðla (svokallaða Euro 6-staðla) sem dragi meðal annars mjög úr losun á sótögnum. Þeir standi því nýjum bensínbílum í það minnsta jafnfætis þegar kemur að mengun, en mengi jafnvel minna.

Bitnar á dreifbýlinu

Að mati Runólfs kemur þessi aukna skattheimta verst niður á þeim sem búa fjarri þjónustu, í dreifbýli. Á þeim svæðum sé dísilbíllinn æskilegri út frá mengun og umhverfissjónarmiði auk þess sem dísilbílar séu eyðslugrennri þegar ferðirnar eru lengri. „Það er verið að refsa þeim sem búa í dreifbýli,“ segir hann um 21 krónu hækkun á dísilolíu. „Sérstaklega þeim sem þurfa að sækja grunnþjónustu um langan veg.“

Reisa veggi en engar brýr

Hann segir að tilfinnanlega skorti heildarstefnumótun stjórnvalda. Stórauknar álögur séu lagðar á jarðefnaeldsneyti án þess að nauðsynleg innviðauppbygging eigi sér stað þegar kemur rafbílavæðingu. „Það er skrýtið að reisa veggi en byggja engar brýr,“ segir hann. Þá skjóti það skökku við að Ísland sé „nánast eina landið sem heimilar brennslu svartolíu á skipum. Hún er ekki einu sinni heimiluð í Tyrklandi,“ segir hann. Um sé að ræða þá olíu til samgangna sem sé hvað mest mengandi af öllum. Hann nefnir líka þær heimildir sem stjórnvöld veiti reglulega til uppbyggingar á mengandi iðnaði. „Ég er mjög vonsvikinn með þetta. Það er ekki verið að leitast við að búa til heildstæða stefnu í útblástursmálum.“

Til viðbótar við þá auknu skattheimtu á jarðefnaeldsneyti, sem stjórnvöld hafa boðað, bendir Runólfur á að samgönguráðherra hafi „hótað“ því að uppbygging innviða í samgöngukerfinu verði fjármögnuð með vegtollum. Það sé ekkert annað en ný skammheimta. Að samanlögðu, yrði þetta að veruleika, væru stjórnvöld að „setja Íslandsmet í nýjum sköttum á eldsneyti“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka