Óvinsælli en „viðrinið Donald Trump“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, segir starfandi ríkisstjórn hafa slegið tvö Íslandsmet á skammri starfsævi sinni. Í fyrsta lagi hefði hún slegið Íslandsmet í óvinsældum, enda hefði ríkisstjórn aldrei mælst jafn lítið traust og jafn óvinsæl á fyrstu mánuðum ævi sinnar. „Í sumar tókst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar meira að segja að slá út viðrinið Donald Trump í óvinsældum. Ríkisstjórn Íslands hefur minna traust en Donald Trump,“ sagði Steingrímur í ræðu sinni á Alþingi í kvöld, þar sem fram fara umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, og hækkaði róminn.

Hann sagði ríkisstjórnina einnig hafa slegið Íslandsmet í ódugnaði og verkleysi, enda hefði hún ekki fundað í 40 daga, og hefði meðal annars velt á undan sér grafalvarlegum aðsteðjandi vanda sauðfjárbænda. Hann spurði til hvers væri verið að ljósleiðaravæða dreifbýlið ef menn ætluðu á sama tíma að horfa á sveitirnar tæmast.

Í stað þess að reyna að fá bændur til að bregða búi ætti frekar að semja við bændur um að draga tímabundið úr framleiðslu gegn því að þeir myndu búa áfram í sveitunum.

Segir ríkisstjórnina liðónýta

Steingrímur sagði fjármálafrumvarpið „nákvæmlega jafn ömurlegt“ og ríkisfjármálaáætlunin frá síðasta vori, sem það byggir á. „Áframhaldandi hægri sveltistefna. Loforð um stórfellda innspýtingu og velferðarmál eru endanlega gleymd og grafin með þessu fjárlagafrumvarpi,“ sagði hann á meðan hann handfjatlaði frumvarpið í ræðustóli.

Steingrímur snéri sér ítrekað að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra svo ekki færi á milli mála að hann beindi orðum sínum að honum. Hann sagði stjórnina vera að gera nákvæmlega sömu hagstjórnarmistökin og voru fordæmd í rannsóknarskýrslu Alþingis.

„Nú er forsætisráðherra farinn að óttast hrun. Hví skyldi ekki formaður Sjálfstæðisflokksins vera að farinn að óttast hrun? Hann fer fyrir flokki með reynslu. Þeir þekkja afleiðingarnar af eigin stefnu.“ Steingrímur sagðist þó ekki ætla að spá fyrir um hrun í bráð, en hætturnar sem þessi beiting ríkisfjármálanna væri sú sama.

Hann lauk ræðu sinni á þessum orðum: „Við þurfum að losna við þessa ríkisstjórn , hún er liðónýt, og vonandi tekst það í vetur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert