Vegabréfsáritanir hugsanlegt úrræði

Bjarni Benediktsson á fundinum í hádeginu.
Bjarni Benediktsson á fundinum í hádeginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er útilokað að fólk fái ekki að koma til Íslands nema það hafi vegabréfsáritanir. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Valhöll í dag, þar sem hann var spurður út í málefni hælisleitenda.

„Það er ekki hægt að útiloka að straumur fólks til Íslands vegna einhverrar þróunar jafnvel aukist frá því sem hefur verið í dag. Eitt af því sem önnur lönd hafa gert til að bregðast við er að taka upp áritanir, að fólk fái ekki að koma til lands nema að vera með áritanir. Það kann að vera á einhverjum tímapunkti að einhver slík úrræði þurfi að koma til skoðunar,“ sagði Bjarni.

Þannig verði hægt að taka á móti fólki sem á rétt á því en hægt að vísa þeim frá sem eiga ekki rétt á að fá stöðu hælisleitenda.

Kostnaðurinn rokið upp

Bjarni var spurður að því hvort rétt sé að eyða sjö milljörðum króna í hælisleitendur sem hafi það „töluvert betra“ en fólk sem býr til dæmis í tjaldi í Laugardalnum.

Þar var spyrjandinn væntanlega að vitna í skýrslu utanríkisráðuneytisins þar sem kemur fram að framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands á síðasta ári námu 7,1 milljarði króna. 26% af þeirri upphæð fóru í málefni flóttamanna og hælisleitenda.

Sigríður Á. Andersen greindi frá því í samtali við mbl.is á dögunum að vinna við umsóknir hælisleitenda hafi kostað um 2,5 milljarða króna á síðara ári. 

Brottvísun Mary,Han­iye og fjölskyldna þeirra var mótmælt á Austurvelli um …
Brottvísun Mary,Han­iye og fjölskyldna þeirra var mótmælt á Austurvelli um síðustu helgi. Samsett mynd

„Við veljum okkur ekki að vera í þeirri stöðu að fá til okkar hælisleitendur. Þetta er ástand sem hefur skapast í heiminum og ef eitthvað er getum við þakkað fyrir að vera eyja norður í höfum með nokkuð mikinn frið í næsta nágrenni,“ svaraði Bjarni.

Hann sagði kostnaðinn við móttöku hælisleitenda hafa rokið upp. „Það sem við höfum lært er að það borgar sig að stórefla stjórnsýsluna, þannig að niðurstaða fáist í þau mál sem allra fyrst. Það er mannréttindamál að fá svar strax,“ sagði hann og nefndi að stórauknir fjármunir hafi farið í að tryggja úrræði fyrir hælisleitendur og að efla kærunefndir stofnunarinnar. „Mér finnst erfitt að horfa á þessum miklu fjármunum sem fara í þetta mál."

Ekki óvopnuð í Víðines

Ráðherra bætti við að því miður hafi reynst vandi að tryggja úrræðin og nefndi sem dæmi að lögreglan fari ekki óvopnuð í Víðines þar sem margt af fólkinu bíði sinna mála. Mikilvægt væri að mannúðarsjónarmið og mannréttindi fólksins séu virt.

Leggja hönd á plóginn 

Að sögn Bjarna verða áfram settir fjármunir í flóttamannabúðir til að aðstoða við að fæða og klæða flóttamenn, auk þess sem fjármunir fara í flóttamannaaðstoð. „Mér finnst að við eigum ekki að horfa á þetta sem vandamál annarra. Við þurfum að taka þátt í því að leggja hönd á plóginn,“ sagði hann og vill beita sömu aðferðum og nágrannaþjóðirnar hafa gert. 

Þór Whitehead, til vinstri, á ráðstefnu á síðasta ári.
Þór Whitehead, til vinstri, á ráðstefnu á síðasta ári. mbl.is/Árni Sæberg

Sagði Sjálfstæðisflokkinn á bak við „hælisleitendastrauminn“

Þór Whitehead, sagnfræðingur, steig fram og sagði að „hælisleitendastraumurinn“ stafi að stórum hluta af ákvörðun fyrrverandi innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins um að afturkalla ákvörðun Útlendingastofnunar um að neita fjölskyldu frá Albaníu landvist. Fiskisagan hafi flogið um að Íslendingar væru reiðubúnir að opna sitt land,. „Í þessum löndum ríkir engin neyð. Þessi ákvörðun er ákvörðun Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur ýtt undir þennan straum sem er að kosta ríkisstjórnina 7 milljarða,“ sagði Þór og bætti við að „því miður“ hafi í tíð Bjarna bæði Icesave-málið og ESB-málið skaðað Sjálfstæðisflokkinn. „Ég óttast að haldi flokkurinn áfram á þessari braut skaði hann þjóðina og sjálfan sig,“ bætti hann við.

Milljón flóttamenn möguleiki

„Ég er sammála þér. Það var slæm ráðstöfun að fara ríkisborgaraleiðina í Albaníumálinu. Það má kannski segja að við höfum með einhverjum hætti misst stjórn á því máli sem endaði svona,“ svaraði Bjarni en sagði það ekki meginorsökina fyrir auknum straumi hælisleitenda frá Albaníu því hann hafi þegar verið orðinn mjög mikill.

„Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vera með mjög strangar reglur og skýr svör, ella munum við kalla yfir okkur bylgjur af nýjum flóttamönnum,“ sagði hann og benti á að engin trygging sé fyrir því að „við fáum ekki yfir okkur milljón flóttamenn“ ef hælisleitendur lúti ekki ströngum reglum.

Hann tók fram að hann vilji ekki setja sig í flokk með þeim sem vilji kalla yfir Ísland þjóðfélagsbreytingar til að leysa einhvers konar flóttamannavanda.

„Galopin“ landamæri fyrir 500 milljónum

Þór spurði Bjarna hvort ákvörðun stjórnvalda um að taka við 100 flóttamönnum á ári fyrir utan hælisleitendur næstu fimm árin hafi ekki verið ákvörðun Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta er tímabundin ákvörðun,“ svaraði Bjarni og sagði að í þessu tilviki hafi stjórnvöld stjórn á hverju einasta tilfelli. Fólk sem fari eftir þessari leið eigi möguleika á að skjóta rótum á Íslandi.

„Ég hef ekki áhyggjur, svo lengi sem menn vandi sig við undirbúning við móttöku á slíku fólki. Við tókum ákvörðun á sínum tíma að galopna landamælin fyrir 500 milljóna markaði. Það eru opin landamæri fyrir 500 milljónir manna til að koma hingað. Það hefur ekki kallað yfir okkur þann vanda sem svartsýnir menn töldu.“

Bjarni lauk máli sínu með því að nefna að Íslendingar hafi fengið vinnuafl erlendis frá þegar skortur hefur verið á því og að vinnuafl hafi líka farið frá landinu þegar þörf hefur verið á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert