Vígahnötturinn á stærð við golfkúlu

Vígahnötturinn tók sér góða tíma í að falla í gegnum …
Vígahnötturinn tók sér góða tíma í að falla í gegnum gufuhvolfið og sást því vel víða um land. Ljósmynd/Twitter

Ljósa­gang­ur á himni yfir Íslandi í gær­kvöldi sem vakti mikla athygli reyndist vera vígahnöttur.

Frétt mbl.is: Vígahnöttur á kvöldhimni vekur athygli

En hvers konar fyrirbæri er vígahnöttur? Líkt og með önnur stjörnufræðileg fyrirbæri hefur Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefjarins, svör á reiðum höndum.

„Þetta er óvenju skært og áberandi stjörnuhrap eða loftsteinahrap. Ef loftsteinahröpin ná meiri birtu en birtu Venusar sem er allra jafna bjartasta stjarnan sem við sjáum á himninum þegar hún er á lofti, þá köllum slík loftsteinahröp vígahnetti,“ segir Sævar Helgi í samtali við mbl.is.  

Vígahnettir eru stærri en hefðbundin stjörnuhröp sem eru yfirleitt á stærð við sandkorn að sögn Sævars Helga. „Í tilviki vígahnatta erum við að tala um loftsteina sem eru á stærð við bláber, jarðaber og allt upp í fótbolta eða ennþá stærra.“ 

Miðað við birtustig vígahnattarins í gærkvöldi áætlar Sævar Helgi að hann hafi verið á stærð við golfkúlu. „Hnötturinn sundraðist í lokin sem bendir til þess að um hafi verið að ræða stein úr bergi en ekki járni eins og sumir loftsteinar eru.“

Erfitt er að spá fyrir um vígahnetti og segir Sævar Helgi að helst sé hægt að gera ráð fyrir þeim á þeim tíma árs þegar loftsteinadrífur fara yfir himininn. Svo hafi hins vegar ekki verið í gærkvöldi. „Í gær var engin tiltekin loftsteinadrífa í gangi þannig að þetta var handahófskenndur vígahnötur sem varð svona áberandi. Það sem var kannski skemmtilegast við hann var hversu margir sáu hann þar sem hann var frekar lengi að falla í gegnum gufuhvolfið þannig að margir gátu gefið sér tíma til að horfa upp sem er tiltölulega sjaldgæft með loftsteinahröp.“

Sjálfur ákvað Sævar Helgi ákvað að fara snemma í rúmið í gærkvöldi og missti því af herlegheitunum. „Svo var ég bara vakinn upp við þetta allt saman sem var nú bara ánægjulegt en ég er ekki alveg nógu sáttur með sjálfan mig að hafa misst af þessu þar sem ég horfi svo mikið til himins hvort sem er.“ Hann segir það þó ekki koma að sök þar sem hann hefur séð nokkra vígahnetti áður, og marga skærari en þennan sem sást á himni í gærkvöldi. Hann fagni því þó ávallt að vera vakinn upp við þegar eitthvað markvert á sér stað á himninum. 

Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefjarins, svaf á sínu græna eyra …
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefjarins, svaf á sínu græna eyra í gærkvöldi þegar vígahnötturinn sást á himni. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert