Afturkalla leyfi til hótelbyggingar

Frá framkvæmdunum fyrir framan Vegamót fyrr í mánuðinum.
Frá framkvæmdunum fyrir framan Vegamót fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir fimm hæða hótel að Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Ákvörðunin er byggð á skorti á bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þeirri staðreynd að hótelið átti að standa nær aðliggjandi húsi en heimilt var og að kjallarinn undir húsinu væri í reynd tvær hæðir, en ekki ein.

Borgin krafðist þess að niðurstaða byggingafulltrúa, sem heimilaði bygginguna, yrði staðfest. Á það féllst nefndin ekki. Fram kemur að í byggingarleyfi sé gert ráð fyrir veitingasal á tveimur hæðum, með 130 sætum. Veitingastaðir af þeirri stærðargráðu þurfi að hafa tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau séu ekki að finna í áætlunum.

Þá segir að pláss þurfi að vera fyrir átta sorptunnur við húsið að Laugarvegi 18b, auk brunastiga. Nýbyggingin megi þannig ekki liggja upp að bakhlið Laugavegs 18b, þar sem fyrirhugaður brunastigi eigi að vera. „Samkvæmt hinu samþykkta byggingarleyfi mun byggingin á Vegamótastíg 7 liggja þétt að byggingum nr. 18a og 18b að Laugavegi.“

map.is
map.is map.is

Kjallarinn tvær hæðir en ekki ein

Þá segir að tekið sé fram í deiliskipulagi að heimild sé fyrir kjallara á einni hæð undir húsunum, fyrir bílastæði. Samkvæmt aðaluppdráttum, sem samþykktir hafi verið af byggingafulltrúa, hafi verið gert ráð fyrir kjallara á tveimur hæðum og að á efri hæðinni ætti að vera veitingasalur. „Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis.“

„Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar,“ segir í úrskurði nefndarinnar. Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, frá því í maí, er því felld úr gildi.

Nýja hótelið á Vegamótastíg 7-9 á að vera sunnan við …
Nýja hótelið á Vegamótastíg 7-9 á að vera sunnan við Mál og menningu á Laugavegi 18 í Reykjavík. Teikning/Arkþing/Birt með leyfi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert