Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auk sérsveitar ríkislögreglustjóra hefur handtekið karlmann sem leitað var að í morgun eftir að hann settist inn í bíl við Vesturberg í Breiðholti haldandi á hníf og bað ökumanninn um að aka á brott.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið handtekinn í Elliðaárdal eftir ábendingu frá vegfaranda. Segir Gunnar að rætt verði við manninn síðar í dag þar sem hann hafi verið undarlegur í háttum og líklega undir áhrifum einhverra lyfja.
Hann tekur fram að maðurinn hafi ekki ógnað öðru fólki en ökumanninum sem hann bað um að keyra sig á brott.