Agnes Bragadóttir
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýsa ákveðnum efasemdum í garð fyrirhugaðra skattahækkana í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, einkum í garð hækkana á áfengisgjaldi og bensín- og dísilgjaldi.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, segir að fjárlagafrumvarpið snúist ekki bara um útgjöld. Ræða þurfi hvaða byrðar verið sé að setja á einstaklinga og fyrirtæki í formi skattahækkana.
„Þær fyrirætlanir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu varðandi tekjuöflun ríkissjóðs og breytingar á sköttum og gjöldum hér til hækkunar eru með þeim hætti að þær hljóta að taka breytingum í meðförum þingsins,“ segir Óli Björn í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að ekki skipti máli hvort rætt sé um fyrirhugaða hækkun á áfengisgjaldinu, hækkun á dísilgjaldinu eða aðrar hækkanir. „Það kæmi mér verulega á óvart ef það væri þingmeirihluti fyrir slíkum breytingum,“ segir Óli Björn.