Primera stefnir Flugfreyjufélaginu

Ótímabundnu verkfalli hefur verið frestað til 2. október næstkomandi.
Ótímabundnu verkfalli hefur verið frestað til 2. október næstkomandi. mbl.is

Ótímabundnu verkfalli flugliða um borð í flugvélum Primera Air, sem átti að hefjast á morgun, 15. September, hefur verið frestað til 2. október næstkomandi. Primera Air hefur stefnt Flugfreyjufélagi Íslands vegna verkfallsboðunarinnar og gerir kröfu um að hún verði úrskurðuð ólögmæt.

Flugfreyjufélagið samþykkti það með öllum greiddum atvæðum í vor að boða til verkfalls um borð í vélunum á þeim forsendum að réttindi flugliða væru ekki virt um borð í vélunum og laun þeirra væru langt undir íslenskum lágmarkslaunum.

Andri Már Ing­ólfs­son, eig­andi Pri­mera, sagði í samtali við Morgunblaðið í sumar að verkfallsboðunin væri skemmdarstarfsemi og að engin réttindi væru brotin á starfsfólki. Hann sagði jafnframt að Flugfreyjufélagið hefði engar forsendur fyrir því að boða verkfall hjá flugliðum fyrirtækisins, enda væri enginn þeirra félagsmaður í Flugfreyjufélagi Íslands.

En flugvélar Primera air eru mannaðar alveg eða að hluta frá starfsmannaleigum utan Íslands, meðal annars Flight Crew Soultions (FCS). „Við átt­um okk­ur ekki al­veg á hverj­ir ætla í verk­fall. Þetta er eins og ég myndi boða verk­fall í ál­ver­inu. Það er eng­inn starfsmaður í ál­ver­inu sem teng­ist mér eða fyr­ir­tæki mínu og þar hef ég enga lög­sögu,“ sagði Andri jafnframt við Morgunblaðið í sumar.

Telja sig hafa rétt til að krefjast kjarasamnings

Málið er nú komið inn á borð Félagsdóms og er málflutningur áætlaður þann 21. september næstkomandi. „Staðan er sú að Primera höfðaði mál á hendur Flugfreyjufélaginu sem var þingfest þann 12. september síðastliðinn. Til þess að gefa félagsdómi tækifæri til að meðhöndla málið þá var verkfallinu frestað,“ segir Magnús Norðdahl, lögmaður hjá ASÍ sem rekur málið fyrir hönd Flugfreyjufélagsins. Hann segir stefnuna hafa komið mjög seint og þess vegna verði að gera þetta svona.

Magnús lagði fram greinargerð í Félagsdómi í dag, fyrir hönd félagsins. Þar eru meðal annars ástæður verkfallsboðunar raktar og rök færð fyrir því að um þá starfsmenn sem séu með starfsstöð hér á landi gildi íslensk lög og réttarreglur. Flugfreyjufélagið eigi því rétt á að krefjast þess að gerður sé kjarasamningur við þessa starfsmenn til að tryggja þeim lágmarkskjör. Félagið óskaði árið 2015 eftir formlegum viðræðum um gerð kjarasamnings, en því erindi hafi ekki verið svarað.

Í greinargerðinni kemur fram að á þeim tíma sem flugliðar Primera Air dveljist hér á landi, 6 til 8 vikur í senn, þá hefjist vinna og endi á Íslandi. Verkstjórn og allt skipulag vakta og vinnu miði að því að svo sé. Hér á landi hafi flugliðarnir húsnæði á vegum Primera Air, þar sem þeir taki út hvíld og njóti frístunda.

Flug­fé­lagið Pri­mera Air hefur flogið nær dag­lega frá Íslandi um Kefla­vík­ur­flug­völl í vor, sumar og haust með farþega á leið til Teneri­fe, Alican­te, Mall­orca og fleiri áfangastaða sunn­ar í álf­unni. Þótt hlut­deild flug­fé­lags­ins í ferðum til og frá land­inu sé aðeins brot af flug­um­ferð stærri fé­laga á borð við Icelanda­ir og Wow Air skipta all­ir stærstu selj­end­ur sól­ar­ferða hér á landi við Pri­mera. Úrval Útsýn, Plús­ferðir, Heims­ferðir, Sum­ar­ferðir og Vita bjóða all­ar upp á sól­ar­ferðir í sum­ar þar sem flogið er með flug­fé­lag­inu.

Í engu samræmi við lágmarkjör á Íslandi

Flugfreyjufélagið og ASÍ hafa gagnrýnt Primera Air síðustu ár þar sem þau telja að réttinda flugliða séu ekki virt. Þá hefur Vinnumálastofnun haft málefni flugfélagsins til skoðunar.

Í greinargerðinni sem lögð var fram í dag segir að meðallaun nýliða, samkvæmt þremur gildandi kjarasamningum vegna starfsamanna í millilandaflugi hér á landi, séu á bilinu 405 til 413 þúsund krónur.

Mánaðarlaun flugliða Primera air eru hins vegar um 216 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun, en um er að ræða verktakalaun, að segir í greinargerðinni. Þar kemur einnig fram að samkvæmt almennum ráðningarskilmálum starfsmannaleigunnar FCS, sem sér flugfélaginu fyrir flugliðum, séu kjör starfsmanna þannig að vaktaálag er ekkert, ekki er gert ráð fyrir greiðslu fyrir yfirvinnu eða vinnu á helgi- og frídögum, engar tryggingar eru keyptar vegna starfsmanna, engar greiðslur eru vegna veikinda, engin laun eru greidd ef starfsmaður er í vanskilum við starfsmannaleiguna, engin ábyrgð er tekin á töfum á launagreiðslum, uppsagnarfrestur er 14 dagar og heimilt er að rjúfa ráðningarsamning án fyrirvara.

Kjör starfsmanna Primera air séu því í engu samræmi við þau lágmarskjör sem gilda í starfsgreininni hér á landi og fela í sér félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði.

Í greinargerðinni er skorað er á stefnanda, Primera Air, að upplýsa hver sé staða og hvert sé réttarsamband áhafnarinnar og stefnanda um borð í þeim flugvélum sem hingað eru leigðar með sömu áhöfn. Jafnframt er skorað á að upplýst verði eftir hvaða kjarasamningum áhöfn þiggi laun, enda hafi framkvæmdastjóri Primera air fullyrt að laun séu greidd samkvæmt kjarasamningum þar sem starfsemin fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert