Lággjaldaflugfélagið WOW air sætir gagnrýni í ísraelska fjölmiðlinum Haaretz vegna þess hve fáir farþegar njóta auglýstra tilboða. Í fréttinni er horft til auglýsinga WOW þar sem boðið er upp á flug báðar leiðir frá Ísrael til New York, Boston, Pittsburgh eða Washington á 319 dollara. Um er að ræða kynningartilboð sem er í gildi til 18. mars næstkomandi þar sem fluggjaldið er 120 dollarar aðra leiðina en 199 dollarar hina.
Samkvæmt fréttinni hafa Ísraelar notið lággjaldafluga frá því að samningar voru gerðir við Evrópusambandið fyrir fjórum árum en auglýsingar WOW air hafa vakið mikla athygli frá því að flugin fóru í sölu í maí þar sem ekkert flugfélag hefur boðið upp á jafnódýr flug frá Ísrael til Norður-Ameríku. Þeir sem eru reiðubúnir að panta sveigjanleg flug geta fundið umrædd kynningartilboð upp á 319 dollara á vefsíðu flugfélagsins.
Samkvæmt könnun „TheMarker“ á smáa letri íslenska flugfélagsins eiga auglýst verð aftur á móti einungis við um fá sæti í hverju flugi, en þegar þau sæti eru bókuð eru önnur flug mun dýrari að því er fram kemur í fréttinni. Þá er tekið fram að í þokkabót sé einungis handfarangur innifalinn í fluginu en sé gildistími tilboðsins hafður í huga telur fréttamiðillinn ólíklegt að ísraelskum farþegum nægi að hafa handfarangur með sér í ferðalagið.
Verðathugun „TheMarker“ leiddi í ljós að vikulöng ferð frá 14. nóvember myndi kosta um 700 dollara með farangri, sem er meira en tvöfalt dýrara en auglýst verð, en frá 23. nóvember myndi jafnlöng ferð kosta 570 dollara.
Frétt Haaretz: „First Wow Flight Leaves Israel, but Few Fliers Enjoy Its Super-low Fares“