„Að slíta ríkisstjórn er stórt mál“

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Hanna

Það er best að huga að þjóðarhagsmunum í þessu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, um þá stöðu sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum eftir að stjórn Bjartrar framtíðar sleit stjórnarsamstarfi eftir að í ljós kom að dóms­málaráðherra hefði upp­lýst Bjarna Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra um að faðir hans væri meðal meðmæl­enda fyr­ir upp­reist æru dæmds barn­aníðings. 

Guðlaugur Þór situr nú á fundi þingflokks Sjálfstæðisflokks í Valhöll sem hófst klukkan 11 „Ég vissi af þessu fyrir nokkrum klukkutímum þegar ég vaknaði í morgun og við þurfum að fara vel yfir það og það er það sem við erum að fara að gera á þessum fundi.“

Aðspurður um hvort ganga eigi til kosninga segir Guðlaugur að ræða þurfi þann möguleika af yfirvegun. „Það er verið að vinna að mjög stórum málum. Fjárlagafrumvarpið er komið fram og það segir sig sjálft að það er ekki sama hvernig á þessum málum er haldið. Að slíta ríkisstjórn er stórt mál.“ 

Guðlaugur Þór telur að Bjarni Benediktsson njóti ennþá stuðnings þingflokksins. „Bjarni hefur haft stuðning Sjálfstæðismanna og ég á ekki von á að það verði breyting á því. Það er mjög flókin staða sem er komin upp núna í stjórnmálunum og við Sjálfstæðismenn erum að setjast yfir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert