Einhugur er hjá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að boða eigi til kosninga sem fyrst. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, að loknum þingflokksfundi flokksins í morgun. Lögum samkvæmt sé hægt að boða til kosninga eftir þrjár vikur.
„Það er einhugur hjá okkur um að eðlilegast væri að boðað yrði til kosninga og líkt og ég sagði við fjölmiðla í morgun þá sé ég ekkert annað í stöðunni,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. „Það liggur fyrir að ríkisstjórnin er sprungin og það er engin önnur ríkisstjórn í kortunum.“
Krafan um kosningar hefur komið fram hjá talsmönnum fleiri flokka. Viðreisn hvatti í nótt til þess að kosið verði sem fyrst og þá sagðist Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, nú í morgun ekki telja annan kost í stöðunni.
Spurð hvort ríkisstjórnarslitin hafi komið henni á óvart segir hún svo ekki vera. „Þetta mál kemur manni á óvart í sjálfu sér. Mér fannst hins vegar staðfestast enn frekar í umræðum um stefnuræðu að þessi ríkisstjórn hefur verið ósamstæð allan tímann. Það hefur ekki verið mikil ástríða í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, þannig að kannski kemur það ekki á óvart að þetta mál verði til þess að allt springi í loft upp.“
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði nú í morgun að óeðlilegt væri að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi deilt með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra upplýsingum um aðkomu föður hans að máli er varðar uppreist æru barnaníðings. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hvatti Sigríði í kjölfarið til að líta til eigin ábyrgðar í málinu.
„Að mínu viti er mikilvægt að Alþingi axli ábyrgð á umfjöllun um þetta mál,“ segir Katrín. Málsmeðferð hafi verið lokið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og kveðst hún telja aðstæður kalla á að þar verði skipuð ný forysta og farið yfir þessar spurningar. „Því það er mikilvægt að öll sjónarmið komi fram í því,“ segir hún og bætir við að ákvörðun dómsmálaráðherra veki vissulega upp spurningar.
Katrín segist hafa heyrt í formönnum nokkurra stjórnmálaflokka og þá hafi Bjarni hringt í hana í gærkvöldi og upplýst um stjórnarslitinn. Hún segir engar viðræður um stjórnarsamstarf hins vegar vera í gangi. „Við verðum að sjá hvað gerist í dag. Það er ekkert hægt að fara fram úr sér með það. Við bíðum með að sjá hvað forystumaður ríkisstjórnarinnar segir.“