„Bjarni er kominn í mjög erfiða stöðu. Hans ríkisstjórn springur út af leyndarhyggju í kring um hann,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, um slit ríkisstjórnarsamstarfsins.
Grétar segir að málið snúist um trúnaðarbrest og leyndarhyggju og í því ljósi þurfi kannski ekki að koma á óvart að Björt Framtíð gangi frá þessu stjórnarsamstabrfi. Hann minnist þess í fljótu bragði ekki að ríkisstjórn á Íslandi hafi áður sprungið vegna siðferðislegs álitamáls.
„Maður hefur ekki séð neitt þessu líkt á lýðveldistímanum. Þetta er auðvitað nýr tónn í stjórnmálum.“ Hann segir að fyrir virðist liggja að reynt hafi verið að koma því þannig fyrir að nöfn meðmælenda þeirra sem sækja um uppreista æru yrðu ekki birt. „Síðan þegar það liggur fyrir að mönnum beri að birta þau þá opna menn munninn – þegar menn eru komnir upp að vegg.“
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, hefur sagt að boða þurfi til kosninga sem fyrsta. Grétar segir að málið hljóti að vera mjög erfitt fyrir formann Viðreisnar. „Hann er í allt öðruvísi stöðu gagnvart þessu, þar sem hann er náskyldur forsætisráðherra og föður hans.“
Spurður hvað nú taki við segir Grétar að ef til vill reyni menn að leita að öðru stjórnarmynstri. Hann geti hins vegar ekki séð að nokkur flokkur muni stökkva í ríkisstjórn með Bjarna. Hann segir að einn möguleikinn sé að Sjálfstæðisflokkurinn, og hugsanlega Viðreisn, sitji í minnihlutastjórn fram til vors.
Sveitarstjórnarkosningar fara fram í vor og segir Grétar ekki óþekkt að kosið sé til þings og sveita á sama tíma. „Það er ekki óþekkt en það er mögulega hægt að kjósa fyrr.“
Umræður um fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar áttu að fara fram á Alþingi í dag. Grétar segir að svo gæti farið að í annað skiptið í röð verði fjárlög samþykkt sem ekki séu studd ríkisstjórn. Hann telur þó afar ólíklegt að fjárlögin fari í gegn um þingið við þessar aðstæður.