Verði ríkisstjórnarflokkarnir beðnir um að sitja í starfsstjórn af hálfu forseta Íslands á fundi hans með formönnum stjórnmálaflokkanna hyggst Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, óska eftir því að Björt framtíð eigi ekki aðild að henni. Þetta kemur fram í viðtali Ríkisútvarpsins við hann.
„Ég átti fund með ráðherrum Bjartrar framtíðar í dag og lýsti þeirri skoðun minni að mér þætti rétt að ráðherrarnir bæðust lausnar frá störfum í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem þeir hefðu gefið. Það var ekki mikill ágreiningur um það milli okkar. Þannig að ég er ekki að gera ráð fyrir því að ráðherrarnir muni vilja sitja áfram í starfsstjórn.“
Bjarni sagðist annars ekki eiga sér neina sérstaka draumasamstarfsmenn í ríkisstjórn þegar kæmi að því að mynda ríkisstjórn.
„Ég mun hins vegar berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn sæki fram, að hann endurheimti allt það traust sem hann fékk í síðustu kosningum og bæti við sig. Ég mun tala fyrir því að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir stjórnfestu í landinu að Sjálfstæðisflokkurinn komi enn sterkari en úr síðustu kosningum, jafnvel þótt hann hafi þar fengið tvöfalt fleiri þingmenn en næststærsti flokkurinn.“