Boðað verði til kosninga hið fyrsta

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Hanna

Þingflokkur Viðreisnar telur réttast að boðað verði til kosningar hið fyrsta. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem flokkurinn sendi frá sér í nótt, eftir að samstarfsflokkurinn Björt framtíð tilkynnti stjórnarslit við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Þingflokkur Viðreisnar kom saman til fundar eftir að Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar tilkynnti Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar um stjórnarslitin og lauk þeim fundi á fimmta tímanum í morgun og sendi þingflokkurinn þá frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar líkt og í samfélaginu öllu. Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varða.

Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta,“ segir í yfirlýsingunni.

Möguleikinn á stjórnarslitum ekki ræddur innan Viðreisnar

Benedikt Jóhannesson segir í samtali við RÚV á fimmta tímanum í morgun að hann hafi ekki vitað að stjórnarslit væru yfirvofandi. „Það verður hver að taka sýna ákvörðun fyrir sig þetta er ákvörðun Bjartrar framtíðar og þeirrar stjórnar. Maður verður að virða það þegar maður er í samstarfi við einhvern,“ segir Benedikt.

Möguleikinn á stjórnarslitum hafi ekki verið ræddur innan Viðreisnar. „Það getur verið að einhverjir innan Viðreisnar hafi velt þessu fyrri sér, en þetta hefur ekki verið rætt í stjórn eða þingflokki.“

Benedikt segist ekki hafa upplifað það sem trúnaðarbrest að Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra hafi rætt við forsætisráðherra um mál sem faðir hans átti aðkomu að, en ekki aðra í stjórninni. „Það verður þó að játast að við erum að horfa á mál sem eru bara að koma fram núna í fjölmiðlum almennt,“ sagði Benedikt og kvaðst hafa rætt við forsætisráðherra sem hafi útskýrt málið fyrir honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert