Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, segir að eðlilegt sé að horfa til kosninga.
„Það virðist blasa að það sé möguleikinn í stöðunni. Samt eru ýmsar flækjur sem þarf að hugsa um. Við þurfum líka að skilja þessi mál sem verða til þess að Björt framtíð hættir. Það er enginn innan Viðreisnar sem ekki er með fulla samúð með fórnarlömbum kynferðisofbeldis,“ sagði Benedikt í Alþingishúsinu eftir þingflokksfund Viðreisnar.
„Við verðum að horfa sérstaklega á þau mál og önnur mál sem hafa verið að gerjast og við höfum tjáð okkur um, til dæmis um flóttamenn og hælisleitendur. Þessi mál hverfa ekkert þótt það verði öðruvísi stjórnarmynstur. Við munum halda okkar striki í þeim málum.“
Hann segir að það hafi verið óheppilegt að dómsmálaráðherra greindi Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra, frá því að faðir hans hafi undirritað meðmælabréf sem varð til þess að Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu.
„Ég held að það hafi verið óheppilegt að dómsmálaráðherra tók þá ákvörðun. Mér hefði fundist það eðlilegt að hann hafi haldið þessari vitneskju innan ráðuneytisins,“ sagði Benedikt.
Spurður út í kosningar sagði hann: „Ef það verða kosningar eins fljótt og auðið er verða þær líklega á svipuðum tíma og kosningar voru í fyrra. Það myndi þýða að fjárlagafrumvarp væri að koma mjög seint og við yrðum að afgreiða það í hasti aftur. Það er ekki komin nein lending í þessu.“
Spurður hvort málið sem um ræðir grafi undan trausti á forsætisráðherra sagði Benedikt að traust sé eitthvað sem sé í samfélaginu í heild sinni. „Skynjun fólks á atburði er svo mismunandi. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé upplýst nákvæmlega hvernig þessir atburðir gerðust.“
Benedikt var einnig spurður hvort hann útiloki áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. „Við teljum að kosningar séu vænlegasti kosturinn. Við ráðum því ekki ein. Ef það verður ofan á að meirihluti þingsins vill ekki kosningar verður að skoða alla fleti en það er ekkert komið á það stig ennþá.“