Einhugur meðal þingmanna Framsóknar

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Einhugur var um á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í morgun um að ekki kæmi til greina að ganga inn í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins.  „Það er ljóst að við erum ekki að fara í neina slíka ríkisstjórn,“ segir Gunnar Bragi.

Þingflokkur Framsóknar fundaði í morgun um þá stöðu sem nú er komin upp eftir að Björt framtíð dró sig úr úr stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn skömmu eftir miðnætti í nótt.

Eftir þann fund sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að ekki kæmi til greina að ganga inn í stjórnarsamstarfið, en flokkurinn væri hins vegar tilbúinn til „samtals við alla um allar þær leiðir um að hér væru ábyrg stjórnvöld til staðar“. 

Gunnar Bragi segir að allir þingmenn Framsóknarflokksins séu sammála þessari afstöðu formannsins. „Það voru allir sammála um þetta,“ segir Gunnar Bragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert