„Þetta er búið að vera ansi erfitt. Við upplifðum því miður fréttir í fjölmiðlum í kvöld, sérstaklega af dómsmálaráðherra, um að það hafi verið trúnaðarbrestur á milli stjórnarflokkanna.“ Þetta segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, en flokkurinn sleit seint í kvöld stjórnarsamstarfi sínu við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
Óttarr segir að meðhöndlun málsins og þær upplýsingar sem dómsmálaráðherra hafi gefið í sjónvarpinu í kvöld um að hún hafi rætt stöðuna við forsætisráðherra í júlí, en leynt það öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, samræmist ekki því hvernig Björt framtíð telji að samstarf eigi að vera háttað.
„Það er erfitt að stíga frá mörgum góðum verkefnum sem við höfum verið að vinna að, en það var yfirgnæfandi samstaða í stjórninni að það væri ekki lengra gengið að sinni,“ segir Óttarr.
Spurður nánar út í ákvörðun Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra, að láta Bjarna vita af því að faðir hans hafi verið meðal meðmælenda hjá Hjalta Sigurjóni Haukssyni, dæmdum barnaníðingi, þannig að hann fengi uppreist æru, segir Óttarr að fyrstu viðbrögð sín séu að slíkt sé á gráu svæði. „En fyrst og fremst er þetta trúnaðarbrestur innan samstarfsins,“ segir hann.
„Við lögðum mikla áherslu á að þegar gengið var til samstarf að unnið yrði að trúnaði og því fylgt,“ segir Óttarr. Niðurstaðan hafi ekki verið á þá leið.
Spurður um framhaldið segist Óttarr ekki þora að fullyrða um hvað muni nákvæmlega gerast. „Ef ég á að segja eins og er. Hef ekki hugmynd um það,“ segir hann og bætir við að hann og flokkurinn hafi ekki reynslu af slíkri stöðu.
Óttarr segist hafa talað við bæði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í kvöld eftir að niðurstaða stjórnar Bjartrar framtíðar lá fyrir. Hann segist gera ráð fyrir að hitta þá á morgun, alla vega forsætisráðherra.