„Ég vil taka það fram að það var mér áfall að heyra af því. Ég hefði aldrei getað sjálfur skrifað undir slíkt bréf og ég myndi aldrei verja slíka gjörð,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu, en hann ræddi við blaðamenn í Valhöll.
Þar sagði Bjarni frá afstöðu sinni til þess að faðir hans, Benedikt Sveinsson, skrifaði undir meðmæli fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmdan barnaníðings, með umsókn hans um uppreist æru.
„Þetta var vandasöm staða, þarna var ég kominn með upplýsingar um mál sem ekki var í umræðunni á þeim tíma, sagði Bjarni. „Ég tók þá ákvörðun að þetta mál myndi ég meðhöndla sem trúnaðarmál, þar sem sambærilegt mál var þegar komið fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála ákvað ég að það sama myndi eiga við um þetta mál.“
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins hófst klukkan 11 í morgun, honum lauk á þriðja tímanum í dag og hefur þess verið beðið síðan þá að Bjarni tjáði sig um stöðu mála, en hann hefur ekkert látið hafa eftir sér síðan stjórn Bjartrar framtíðar ákvað að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vegna trúnaðarbrests. Þar vísaði formaður Bjartrar framtíðar, Óttarr Proppé til þess að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði látið Bjarna vita að faðir hans hefði skrifað undir meðmæli fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmds barnaníðings, með umsókn hans um uppreist æru en ekki látið samstarfsflokka sína í ríkisstjórn vita.
„Mig langar til að ræða við ykkur um þá stöðu sem upp er komin í íslenskum stjórmálum,“ sagði Bjarni í upphafi fundar. „Ég mun byrja á því að ræða við ykkur um þessa nýskeðu atburði, um atburði vikunnar. Síðan mun ég koma á framfæri mínum skoðunum á því hvernig best sé að spila úr þessari stöðu.“
Bjarni sagði að undanfarið hefði mikil umræða verið um fyrirkomulag uppreistrar æru. Ýmis viðhorf hefðu komið fram í því sambandi. „Það sem við höfum öll lært af þeirri umræðu er að lög um þessu efni eru algerlega úr takt við viðhorf í nútíma þjóðfélagi. Við sem störfum á Alþingi höfum brugðist,“ sagði Bjarni. Ekki væri gerður greinarmunur á eðli brota í þessu sambandi. Þegar um væri að ræða kynferðsbrot gegn börnum, sagðist hann vera sannfærður um að allir Íslendingar fylltust óhug og ættu erfitt með að fyrirgefa slíkt.
„Margir hafa átt um sárt að binda,“ sagði Bjarni og sagði að það hefði snert sig djúpt að sjá þolendur og aðstandendur stíga fram.
„Það er ekki hægt með stjórnvaldsákvörðun að segja sem svo að hér hafi æra verið uppreist. Það getur enginn tekið sér þá stöðu að ákveða þetta. Þessu hefur okkur mistekist að breyta,“ sagði Bjarni. „Okkar hugur hefur ávallt verið hjá þeim sem eiga um sárt að binda, hafa þurft að liða sálarangist.“
Bjarni sagðist aldrei hafa haft aðkomu að ákvarðanatöku í þessum málum og að á þessu kjörtímabili hefðu engin slík mál verið afgreidd. Nú væri verið að vinna að breytingum á framkvæmd uppreistrar æru.