Flestir vilja kjósa strax

Bjarni Benediktsson fyrir utan Valhöll í morgun.
Bjarni Benediktsson fyrir utan Valhöll í morgun. mbl.is/Hanna

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins funda nú í Valhöll um stöðuna sem upp er komin í kjölfar þess að ríkisstjórnin er sprungin. Aðrir þingflokkar sitja líka á fundum.

Fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hafa talað skýrt og segja að ekkert annað sé í stöðunni en að boða til alþingiskosninga - og það sem fyrst. Einhverjir Píratar hafa efasemdir þar að lútandi og vilja láta reyna á samstarf fimm flokka, eins og reynt var eftir síðustu kosningar. 

Lítið hefur heyrst í flokksforystu Sjálfstæðisflokksins frá því í gærkvöldi en flokkurinn ræður nú ráðum sínum í Valhöll. Hér fyrir neðan er farið yfir það helsta sem heyrst hefur frá fulltrúum flokkanna sem sæti eiga á Alþingi.

Vinstri hreyfingin grænt framboð

Í herbúðum vinstri grænna er einhugur um að gengið verði til kosninga sem fyrst. Katrín Jakobsdóttir formaður hefur sagt að ekkert annað sé í stöðunni. „Það ligg­ur fyr­ir að rík­is­stjórn­in er sprung­in og það er eng­in önn­ur rík­is­stjórn í kort­un­um.“

Steingrímur J. Sigfússon benti í samtali við mbl.is á að hægt væri að kjósa mjög hratt, á þremur til fjórum vikum. Framboðsfrestur sé fimmtán dagar. Hann taldi ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að kosið yrði á sama tíma eða jafn­vel fyrr en í fyrra­haust. Allt benti til þess að kosningar yrðu mjög fljótt.

Brynjar Níelsson segir Bjarta framtíð hafa farið á taugum.
Brynjar Níelsson segir Bjarta framtíð hafa farið á taugum. mbl.is/Hanna

Framsóknarflokkurinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, hefur sagt að erfitt væri að taka upp stjórnarmyndunarviðræður án þess að til nýrra kosninga komi. Við blasi að erfitt verði að taka upp þráðinn við nýja stjórnarmyndun í ljósi þess hve erfiðlega gekk að mynda ríkisstjórn eftir síðustu kosningar.

Uppfært kl. 12:18: Sigurður Ingi sagði í beinni á RÚV að ekki kæmi til greina að taka sæti í núverandi ríkisstjórn.

Samfylkingin

Logi Einarsson, formaður Samfylkingairnnar, sagði við mbl.is í morgun að Samfylkingarfólk bíði átekta. „Við þorum að fara í kosningar og hlökkum til þess.“ hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki stjórntækur.

Píratar

Píratar virðast vera eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem ekki vill grípa til kosninga tafarlaust. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaþingflokksformaður Pírata sagði við Vísi í morgun að Píratar hefðu ekki tekið ákvörðun um hvort ganga eigi til kosninga strax. „Við viljum ekki rjúka af stað og gefast upp strax og segja kosningar strax,“ sagði hún.

Birgitta Jónsdóttir hefur tekið í sama streng en þingflokkurinn situr nú á fundi eins og aðrir flokkar.

Uppfært kl.12:18: Birgitta sagði að loknum fundi Pírata að heillavænlegast væri að boða til kosninga. Flokkurinn væri þó til í viðræður við alla nema Sjálfstæðisflokkinn.

Jón Þór Ólafs­son þingmaður hefur á hinn bóginn gefið kosningum undir fótinn. Hann seg­ir þrjá kosti vera í stöðunni; fimm flokka stjórn, starfs­stjórn eða að boðað verði til kosn­inga. Síðasti kost­ur­inn sé langlík­leg­ast­ur eins og staðan sé nú.

Viðreisn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á Facebook í morgun að æskilegast væri að boða til kosninga eins fljótt og auðið væri. Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna væri að breyta úteltum kerfum og „upp­ræta sterka til­hneig­ingu ákveðinna hópa til að standa vörð um sér­hags­muni fram yfir al­manna­hags­muni.“

Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra sagði við mbl.is í morgun að kjósa þyrfti fljótlega. „Miðað við reynsl­una í fyrra­vet­ur eru ekki marg­ir mögu­leik­ar í stöðunni. Það þarf að kjósa en það þarf að stjórna land­inu á meðan.“ Hann seg­ir að fyrsti mögu­legi kjör­dag­ur sé lík­lega seint í októ­ber. 

Sjálfstæðisflokkurinn

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem náðst hefur í í morgun hafa verið ýmist argir eða hissa á ákvörðun Bjartrar framtíðar. „Mér finnst algjört ábyrgðarleysi að setja hér allt í uppnám,“ sagði Jón Gunnarsson í samtali við mbl.is.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra tók í svipaðan streng í Morgunútvarpi Rásar 2 og sagði ákvörðunina lýsa „stórkostlegu ábyrgðarleysi“. Björt framtíð hefði átt að gefa Bjarna færi á að ræða málið við samstarfsflokkanna.

Brynjar Níelsson þingmaður sagði á RÚV í morgun að Björt framtíð hefði farið átaugum. Engin leyndarhyggja væri í gangi og að það væri ábyrgðarlaust af Bjartri framtíð að taka þessa ákvörðun. Enginn trúnaðarbrestur hefði átt sér stað.

Mbl.is ræddi við Harald Benediktsson þingmann í morgun sem sagðist vera orðlaus yfir atburðunum. Hann sagði að nú þyrftu formenn flokkanna tækifæri til að ræða saman.

Ásmundur Friðriksson þingmaður sagði við mbl.is Alþingi þyrfti nú að axla ábyrgð. „Ég sagði í viðtali á kosninganótt að ég vildi fá samstarf við Vinstri græna og nú er upplagt að taka það upp aftur.“ Þingið ætti að reyna að mynda starfhæfan meirihluta.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði við fréttamenn fyrir utan Valhöll í morgun, þar sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar, að margt lægi honum á hjarta en að nota þyrfti tímann til að vinna úr þessari stöðu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði við Valhöll í morgun að hann teldi að Bjarni nyti áfram stuðnings þingflokksins. „Það er best að huga að þjóðar­hags­mun­um í þessu sam­hengi.“

Við þetta má bæta að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem mælst hefur með nokkuð fylgi í skoðanakönnunum að undanförnu, á von á því að efnt verði til kosninga fljótlega. „Hugurinn segir mér að kosið verði fyrr en seinna. Og við erum klár í þann slag,“ sagði hún við Vísi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert