„Það að ákveða þátttöku eða slit á ríkisstjórnarsamstarfi í einhverri netkosningu að kvöldi til án þess að málið sé rætt eða farið yfir það með samstarfsfélögum í ríkisstjórn eru forkostuleg vinnubrögð,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Mér finnst þetta sýna mikið ábyrgðarleysi og skil ég ekki hvernig stjórnmálaflokkur sem tekur afdrifaríkar ákvarðanir með þessum hætti á að teljast marktækur,“ segir Páll.
Kosningarnar leggjast vel í Pál en hann telur að þær séu eina færa leiðin út úr þeirri stöðu sem komin er upp. „Það er ekkert annað að gera en að gera sig kláran í bátana. Ég hlakka til að fara í kosningabaráttuna með áherslu á að það sé til þess vinnandi að hafa hér á landi sterka alvöru stjórnmálaflokka sem eru til þess tækir og færir að halda hér traustu stjórnarfari og stöðugleika í efnahagsmálum. Bæði Björt framtíð og Viðreisn hafa sýnt fram á það í gær og í dag að þeir eru ekki til þess bærir,“ segir Páll.
Páll styður formann Sjálfstæðisflokksins og þá afstöðu sem hann tók í ræðu sinni í dag heilshugar og telur að kosningar séu eina færa leiðin út úr þeirri stöðu sem upp er komin. „Bjarni lagði áherslu á að honum var mjög umhugað um það í júlí, þegar hann hafði spurnir af aðkomu föður síns að umsagnarbréfi, að málið fengi nákvæmlega sömu afgreiðslu og færi í sama farveg og það mál sem þegar var farið af stað. Ég skil alveg það sjónarmið, að honum hafi þótt það eðlilegast að það ætti ekki að víkja í neinu frá þeirri málsmeðferð sem þegar var búið að ákveða í hinum málinu. Eftir á að hyggja má vel segja sem svo að það hefði verið heppilegra bæði fyrir hann í pólitísku tilliti og fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leggja upplýsingarnar á borðið um leið og þær lágu fyrir.“
„Ég skil ekki staðhæfingar um að einhver yfirhylming hafi átt sér stað. Það að setja málið í þennan farveg er einfaldlega trygging fyrir því að það sé rétt staðið að þessu enda komu ábendingar frá úrskurðarnefndinni um það að það skyldi fara leynt með ákveðnar prsónugreinanlegar upplýsingar í gögnunum og það mætti ekki birta þær af persónuverndarsjónarmiðum. Það var einfaldlega verið að leita úrskurðar þessarar nefndar um hvort og með hvaða hætti og hversu mikið af þessum gögnum skyldi birt. Þetta var trygging fyrir því að það væri farið að lögum í þessu máli og í því felst engin tilraun til yfirhylmingar á einu né neinu“
Kjördagur hefur ekki enn verið ákveðinn en Páll á von á því að hann verði ákveðinn um helgina. Hann telur æskilegt að flokkarnir komi sér saman um að kosið verði í nóvember. Þannig gefist eðlilegur tími til að haga málum Alþingis fram að kjördegi og undirbúa kosningarbaráttu. „Flokkarnir eiga eftir að gera þetta upp við sig en ef það verður ekki samkomulag um kjördaginn þá verður einfaldlega þingrof og þá þarf að efna til kosninga innan 45 daga frá því. Það er náttúrlega einn kosturinn en æskilegast væri að menn geti komið sér saman um þetta þannig að hægt verði að undirbúa kosningar með mannsæmandi hætti.“
„Mér finnst ólíklegt að fjárlögin verði afgreidd fyrir kosningar en það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það eftir því sem ég best veit. Ef að þau verða afgreidd fyrir kosningar þá verður það gert af starfstjórn þar sem þessi ríkisstjórn hverfur af sviðinu á morgun. Þetta verður hluti af því samkomulagi sem forystumenn flokkanna þurfa að koma sér saman um og ræðst væntanlega af kjördeginum. Ef það verður kosið fyrri hluta nóvember þá gefst nægur tími til að afgreiða fjárlögin eftir kosningar. Þau liggja nú þegar fyrir og það er lögbundið að það þurfi að afgreiða þau fyrir áramót.“