Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað formenn stjórnmálaflokkanna á sinn fund á Bessastaði á morgun. Búast má við því að umræðuefnið verði staðan sem komin er upp í stjórnmálunum eftir að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði. Forsetinn fundar fyrst með Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, í fyrramálið klukkan 11:00.
Klukkan 13:00 fundar forseti með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, klukkan 13:45 á hann fund með Birgittu Jónsdóttur, formanni þingflokks Pírata, klukkan 14:30 er fundur forseta með Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, klukkan 15:15 á forseti fund með Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, klukkan 16:00 hefst fundur forseta með Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og loks klukkan 16:45 á forseti fund með Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar.