Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir það ekki koma til greina að ganga inn í núverandi ríkisstjórn. „Við erum hins vegar tilbúin til samtals við alla um allar þær leiðir um að hér séu ábyrg stjórnvöld til staðar. Hvort það verður meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn og þá hverra flokka, þá erum við tilbúin til samtals við hvern sem er,“ sagði Sigurður eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins í Alþingishúsinu.
„Það eru 12 tímar síðan við fengum þessar fregnir, bætti Sigurður Ingi við. „Held að það sé mikilvægt að menn andi aðeins með nefinu og finni þær leiðir sem eru færar. Það eru held ég engar góðar leiðir til. Stjórnarmyndunarviðræðurnar síðustu voru erfiðar. Það voru ýmsir möguleikar kannaðir, þessi var síðan niðurstaðan og hún entist í átta mánuði,“ sagði hann.
„Ég held að það sé ekki auðvelt að taka upp þráðinn frá því sem þar var. Þess vegna verða menn að vera mjög opnir fyrir því að finna leið, sem mér finnst mjög mikilvægt og okkur Framsóknarmönnum að hér sé ábyrg stjórn og það sé ábyrgð á stjórnarmálum. Almenningur kýs okkur til þess. Ef engin leið finnst er alltaf hægt að fara í kosningar. Mér finnst eðlilegt að við notum þennan dag og hugsanlega morgundaginn til þess að kanna allar leiðir en ef það finnst engin leið þá erum við til í kosningar.“
Spurður segir hann að ákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu hafi komið sér á óvart. „Ég hef skynjað pirring í ríkisstjórnarsamstarfinu í langan tíma og sérstaklega í ljósi þess sem gerðist í stefnuræðunni og við fjárlagaumræðuna en þetta kom mér samt á óvart. Þetta gerðist svo hratt, bara fjórum til fimm tímum eftir að einhver frétt birtist sé ríkisstjórnarsamstarfið búið eftir átta mánuði.“