„Þetta blasti við að þessi ríkisstjórn myndi aldrei halda út kjörtímabilið. Hins vegar það mjög óvænt að það gerist í svona máli en þetta sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórntækur flokkur og þarf að fara að skoða sinn kúltúr frá a til ö,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í Alþingishúsinu í morgun.
„Það er best að hann fái ráðrúm til þess og þá gefst tækifæri fyrir félagshyggjuöfl og þá sem vilja gera raunverulegar breytingar á þessu þjóðfélagi og efna loforð sem voru gefin af öllum flokkum fyrir kosningar tækifæri til að vinna saman. En hugsanlega þarf kosningar fyrst.“
Logi sagði málið sem olli því að stjórnarsamstarfinu var slitið vera óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
„Þetta er auðvitað hryllilegt mál í sjálfu sér og það verður að taka það föstum tökum með því að breyta lögum. En Sjálfstæðisflokkurinn mun þurfa að gera grein fyrir þvi hvernig stendur á því að hann hélt svona á málinu í allt sumar og skýringin er líklega komin á því,“ sagði hann.
„Við sitjum róleg og hugsum og ræðum hvaða leikir eru fram undan. Við höfum það ekki í hendi okkar en við tökum þátt í öllu sem mætir okkur af bjartsýni og krafti. Við þorum að fara í kosningar og hlökkum til þess.“