„Kemur mér óþægilega á óvart“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég veit ekkert um þessi samtöl eða trúnaðarbrest. Ég heyrði þetta bara í fréttunum klukkan sex í morgun þegar ég var í minni daglegu morgungöngu,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is, spurður um viðbrögð sín við slitum á stjórnarsamstarfi ríkisstjórnarflokkanna.

„Þetta kemur mér óþægilega á óvart,“ segir Ásmundur, um ákvörðun stjórnar Bjartrar framtíðar að slíta stjórn­ar­sam­starfi við rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar. Ástæða slit­anna var sögð „al­var­leg­ur trúnaðarbrest­ur inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar.“ Í gær kom í ljós að dóms­málaráðherra hefði upp­lýst Bjarna Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra um að faðir hans væri meðal meðmæl­enda fyr­ir upp­reist æru dæmds barn­aníðings.

„Þó svo að menn hafi fundið fyrir pressu hjá Bjartri framtíð að eitthvað væri í gangi. Þetta er lítill flokkur með þungt ráðuneyti og kannski höfðu þau ekki úthald í þetta og nota þetta sem útgönguleið,“ segir Ásmundur.

Ásmundur telur vænlegasta kostinn í stöðunni að reyna að mynda nýjan meirihluta á þingi. „Núna þarf Alþingi að axla ábyrgð. Ég sagði í viðtali á kosninganótt að ég vildi fá samstarf við Vinstri græna og nú er upplagt að taka það upp aftur.“

„Þrátt fyrir þungar og erfiðar stjórnarmyndunarviðræður á sínum tíma þá finnst mér ábyrgðin liggja í þinginu að sjá hvort að hægt sé að mynda starfhæfan meirihluta, kannski er það ekki hægt fyrr en eftir kosningar. En í mínum huga væri það fyrsti kosturinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert