„Ég veit ekkert um þessi samtöl eða trúnaðarbrest. Ég heyrði þetta bara í fréttunum klukkan sex í morgun þegar ég var í minni daglegu morgungöngu,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is, spurður um viðbrögð sín við slitum á stjórnarsamstarfi ríkisstjórnarflokkanna.
„Þetta kemur mér óþægilega á óvart,“ segir Ásmundur, um ákvörðun stjórnar Bjartrar framtíðar að slíta stjórnarsamstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna var sögð „alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.“ Í gær kom í ljós að dómsmálaráðherra hefði upplýst Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um að faðir hans væri meðal meðmælenda fyrir uppreist æru dæmds barnaníðings.
„Þó svo að menn hafi fundið fyrir pressu hjá Bjartri framtíð að eitthvað væri í gangi. Þetta er lítill flokkur með þungt ráðuneyti og kannski höfðu þau ekki úthald í þetta og nota þetta sem útgönguleið,“ segir Ásmundur.
Ásmundur telur vænlegasta kostinn í stöðunni að reyna að mynda nýjan meirihluta á þingi. „Núna þarf Alþingi að axla ábyrgð. Ég sagði í viðtali á kosninganótt að ég vildi fá samstarf við Vinstri græna og nú er upplagt að taka það upp aftur.“
„Þrátt fyrir þungar og erfiðar stjórnarmyndunarviðræður á sínum tíma þá finnst mér ábyrgðin liggja í þinginu að sjá hvort að hægt sé að mynda starfhæfan meirihluta, kannski er það ekki hægt fyrr en eftir kosningar. En í mínum huga væri það fyrsti kosturinn.“