Kosið verði um miðjan október

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, segir að hægt sé að kjósa á þremur til fjórum vikum frá því að kjördagur er ákveðinn og þing er rofið. Framboðsfrestur sé fimmtán dagar.

„Menn vildu að sá möguleiki væri til staðar ef þannig aðstæður kæmu upp í pólitíkinni að það væri hægt að kjósa mjög hratt,“ sagði Steingrímur að loknum þingflokksfundi Vinstri grænna í Alþingishúsinu.

Bjarni biðjist lausnar 

„Formlega ferlið er það að nú biðst Bjarni Benediktsson lausnar. Ríkisstjórn hans hefur tapað meirihluta sínum hér á þingi,“ bætti hann við. Væntanlega muni forseti Íslands fela honum að sitja í starfsstjórn þangað til framhaldið komi í ljós.

„Mér þykir allt teikna til kosninga og það fljótt. Þá er þetta bara spurning um það að menn kæmu sér saman um kjördaginn og forseti gefi út bréf um það. Ef ekki kæmi málið upp til kasta þingsins í formi tillögu um þingrof og nýjar kosningar. Þá er bara eftir spurning um það hvað er hóflegur tími í þessum efnum,“ sagði hann og taldi ekkert því til fyrirstöðu að kosið yrði á sama tíma eða jafnvel fyrr en í fyrrahaust.

„Ég tel að aðstæðurnar teikni til þess að hér verði kosið um miðjan október, alla vega fyrir lok október.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert