Kosningar líklegasti kosturinn

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir þrjá kosti vera í stöðunni; fimm flokka stjórn, starfsstjórn eða boða til kosninga. Síðasti kosturinn sé langlíklegastur eins og staðan er nú. Þingflokkur Pírata situr nú á fundi og fer yfir stöðuna sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfi flokksins, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar seint í gærkvöldi.

Hann segir afstöðu Pírata ekki hafa breyst frá því stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir eftir þingkosningar í október 2016. Píratar fari ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki eins og staðan er.

„Það er í rauninni það eina sem ég get sagt með vissu á þessari stundu en mér þykir langlíklegast að boðað verði til kosninga. Við erum að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

Jón Þór segir að myndun starfstjórnar og stuðningur Pírata við slíka stjórn sé einn þeirra kosta sem séu í boði og eins að aðrir flokkar taki sig saman um að mynda stjórn. Af hálfu Pírata er ljóst að þeir fari ekki í ríkisstjórnarsamstarf nema ef um fimm flokka stjórnarsamstarf verði að ræða en það sé mjög ólíklegt að slík stjórn verði mynduð. Vísar hann þar til viðræðna um myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem runnu út í sandinn í desember 2016. 

„Ég sé í raun ekki nema þessar þrjár sviðsmyndir núna. Fimm flokka stjórn sem ég tel harla ólíklegt. Starfsstjórn sem við getum stutt undir þeim kringumstæðum að kosningaáherslur okkar yrðu í forgrunni. Það er ný stjórnarskrá, endurreisn heilbrigðiskerfisins, auka traust og uppræta spillingu og auka almenningsákvarðanatöku. Þetta eru þau mál sem voru okkar helstu kosningamál. Eða ganga til kosninga, segir Jón Þór er mbl.is náði í hann á þingflokksfundi Pírata. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert