„Þetta var góður fundur. Það var mikið kjaftað,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann kom af fundi þingflokksins í Valhöll nú fyrir skömmu.
„Við erum að fara yfir ástandið og möguleikana og hvað hægt er að gera. Mér finnst að forsætisráðherra eigi að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Það er auðvitað lykilatriði og ég held að þjóðin eigi það skilið,“ segir Brynjar.
Brynjar segir samstöðu vera meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins að mynda nýja starfhæfa ríkisstjórn, frekar en að ganga til kosninga.
„Ég held að það séu allir möguleikar opnir,“ sagði Brynjar, aðspurður um hvers konar stjórn sé mögulegt að mynda.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, situr enn á fundi flokksins í Valhöll. Hann mun ræða við fjölmiðla á blaðamannafundi seinna í dag.