Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir að það sé henni þungbært að skilja umhverfismálin í óvissu. Hún hafi háleit markmið um hvernig hún vilji upphefja náttúruna „ekki bara í hugum og hjörtum Íslendinga, heldur líka í verki, þannig að við stöndum vörð um hana til allrar framtíðar.“
Þetta segir hún í stöðuuppfærslu á Facebook. Hún segir að þó það sé erfitt að skilja við umhverfismálin sé enn erfiðara að horfa upp á „að valinkunnir menn í krafti leyndarhyggju og vondra vinnubragða, fái meira breik en fórnarlömb þeirra manna sem þeir kvitta upp á fyrir.“
Björt framtíð ákvað í gærkvöldi að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn.
Ráðherrann skýtur föstum skotum að Sjálfstæðismönnum í færslunni, sem gagnrýnt hafa ákvörðun Bjartrar framtíðar harðlega. „Sumir tala um ólgu og aðrar ástæður stjórnarslita? Sumir tala um að ábyrgð sé kastað á glæ. Mér finnst dapurlegt að þeir hinir sömu hafa ekki hugmyndaflug til þess að það sé til fólk, það sé til flokkur, sem tekur einmitt þetta mál svo grafalvarlega að við getum ekki hugsað okkur að halda áfram ríkistjórnarsamstarfi einmitt vegna þess.“