Slíta samstarfi við ríkisstjórnina

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Björt framtíð sendi á fjölmiðla rétt eftir miðnætti.

Stjórn flokksins fundaði í kvöld eftir að það kom í ljós að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, skrifaði undir meðmælabréf um að Hjalti Sigurjón Hauksson, dæmdur barnaníðingur, fengi uppreist æru.

Uppfært kl 00:38:

„Það var mjög eindregin ákvörðun að þetta var kornið sem fyllti mælinn, að þetta gæti ekki lengur gengið í þessa átt.“ Þetta segir Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is.

Guðlaug segir að það hafi verið mikil viðbrögð innan raða flokksins eftir að í ljós kom að forsætis- og dómsmálaráðherra höfðu vitneskju um meðmælendur með umsókn Hjalta Sigurjóns Haukssonar um uppreist æru, sem ekki hafi verið deilt með samráðherrum þeirra eða þjóðinni.

Hún hafi því kallað saman stjórn flokksins sem telji um 80 manns. 30-40 manns hafi mætt og þar hafi verið mjög eindregin skoðun að þetta væri kornið sem fyllti mælinn og að slíta ætti samstarfinu.

Haldin hafi verið rafræn kosning þar sem 70% af þeim 80 sem eru í stjórn hafi kosið og niðurstaðan verið sú að 90% vildu slíta samstarfinu.

Guðlaug Kristjánsdóttir.
Guðlaug Kristjánsdóttir.

„Fundurinn var mjög einróma um þennan trúnaðarbrest innan stjórnarsamstarfsins,“ segir Guðlaug og bætir við að þetta sé eitt af þeim málum sem hafi komið upp og tekið á í samstarfi flokkanna.

Spurð um framhald málsins og þingsins segir hún að framhaldið sé háð því hvernig spilist úr því. „Það er starfandi þing og stjórnarmyndunarumboð liggur frammi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka