Birgitta hættir eftir kjörtímabilið

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef lofað sjálfri mér því að hætta eftir þetta kjörtímabil, óháð lengd þess. Það er ekkert sem getur fengið mig til að skipta um skoðun.“

Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook. Hún segist snortin af bylgju hvatninga þvert á flokka og úr grasrót hennar um að bjóða sig fram aftur í næstu þingkosningum sem kunna að verða í nóvember.

Vill ekki halda fólki í óvissu

„Ástæða þess að ég hef ekki viljað koma með þessa yfirlýsingu strax er einfaldlega vegna þess að þessu kjörtímabili er ekki lokið, þrátt fyrir að núverandi stjórn sé fallinn. En það hefur verið ákall um að ég svari skýrt og afgerandi, bæði meðal félagsmanna sem og meðal okkar pólitísku andstæðinga,“ segir Birgitta og bætir við:

„Ég vil ekki halda fólki í óþarfa óvissu. Ég mun að sjálfsögðu þrátt fyrir að vera ekki í framboði í næstu kosningum, halda áfram að berjast fyrir réttlátara samfélagi og þeim breytingum sem ég hef lagt þunga á að ná í gegn hérlendis sem og erlendis.“

Hafði áður hætt við að hætta

Birgitta lýsti því sama yfir í ágúst í sumar. Þá sagði hún meðal annars: „Það er ekki hollt að vera of lengi á þingi, sama hvað fólk segir. Enginn er ómissandi og sannarlega ekki ég. Mín bíða ótal verkefni sem kraftar mínir nýtast betur til en upplýsi um það nánar þegar nær dregur.“

Fyrir kosningarnar 2013 lýsti Birgitta því einnig yfir að næsta kjörtímabil yrði hennar síðasta enda væri engum hollt að sitja meira en tvö kjörtímabil á þingi. Hún skipti hins vegar um skoðun á síðasta kjörtímabili á þeim forsendum að koma þyrfti í veg fyrir að yfirtöku frjálshyggjumanna á Pírötum sem hún taldi yfirvofandi.

Vill að Helgi Hrafn bjóði sig fram

Birgitta skorar ennfremur á á Pírataspjallinu á Helga Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmann Pírata, í dag að gefa kost á sér í næstu þingkosningum fyrir flokkinn. Helgi sat á Alþingi frá þingkosningunum 2013 en gaf ekki kost á sér áfram í kosningunum fyrir ári.

Helgi Hrafn var einn þeirra sem gagnrýndu Birgittu fyrir að hafa ákveðið að hætta við að hætta á þingi eftir síðasta kjörtímabil. Þau ummæli féllu í tengslum við mikil átök innan Pírata fyrri hluta árs 2016 sem Helgi Hrafn líkti við að vera í ofbeldissambandi þar sem ekkert væri hægt að ræða af ótta við afleiðingarnar. Í kjölfar þess ákvað hann að gefa ekki áfram kost á sér eftir á þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka