Bjarni mættur á Bessastaði

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er mættur á Bessastaði til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. 

„Ég ætla að sýna honum þá virðingu að tala við hann fyrst áður en ég ræði það við aðra,“ sagði Bjarni við fjölmiðla á tröppunum á leið sinni inn á Bessastaði er hann var spurður nánar út í fund sinn við forseta. Bjarni gaf ekki frekari kost á viðtali fyrir fundinn en mun að öllum líkindum ræða við fjölmiðla að honum loknum.

Fyrst átti Bjarni stuttan fund með ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins áður en hann svo gekk á fund forseta. Klukkan 13:00 mun Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, funda með forseta á Bessastöðum og síðan Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, klukkan 13:45, Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, klukkan 14:30, Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, klukkan 15:15, Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, klukkan 16:00 og loks Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, klukkan 16:45. Að því loknu er búist við að forsetinn flytji stutt ávarp.

Búist er við að Bjarni óski eftir lausn fyrir ríkisstjórn sína og að sama skapi að Guðni óski eftir því að ríkisstjórnin sitji áfram sem starfsstjórn á meðan annarri stjórn er ekki fyrir að fara. Bjarni hefur sagt að hann telji eðlilegt að Björt framtíð eigi ekki aðkomu að þeirri stjórn í ljósi þess að flokkurinn hafi sagt sig frá henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert