Hjalti Sigurjón Hauksson, sem var dæmdur í fimm og hálfs fangelsi árið 2004 fyrir að misnota stjúpdóttur sína, og fékk uppreist æru á síðasta ári, sendi innanríkisráðuneytinu harðort bréf samhliða umsókn sinni um uppreist æru á síðasta ári. Hann sagði ákveðna aðila hafa nýtt sér dóminn honum til óbærilegs skaða, ærumeiðinga og gríðarlegs fjártjóns, og óskaði eftir því að dómurinn yrði afmáður.
Bréfið er hluti af gögnum í máli Hjalta sem dómsmálaráðuneytið afhenti mbl.is fyrr í dag. Þar óskar hann eftir því að „réttmætir aðilar afmái óskilyrt tilvitnaðan hæstaréttardóm“ hans frá árinu 2004. Ástæðu beiðninnar segir hana vera að hann hafi ítrekað þurft að gjalda dómsins þrátt fyrir að hafa afplánað hann að fullu og þar með gert upp sakir sínar.
Hann telur upp nokkur fyrirtæki, sem leiða má líkur að hann hafi starfað hjá eða sóst eftir að starfa hjá, sem hann segir hafa nýtt sér dóminn honum til „óbærilegs skaða, ærumeiðinga og gríðarlegs fjártjóns“, eftir að hann hafi sannað sig sem „löghlýðinn og gegn borgari í á fimmta ár“. Hann segir dómstól götunnar hafi margfaldað yfir honum refsinguna.
Hjalti segir jafnframt í bréfinu: „Ég tek skýrt fram að ég tel alvarleika máls þess vera svo mikinn að ég áskil mér rétt til að sækja minn rétt eftir lögformlegum leiðum. Af þeim ástæðum bið ég líka um að innanríkisráðherra verði gert kunnugt um þetta bréf.“
Með bréfinu fylgir svo bréf frá Haraldi Teitssyni, framkvæmdastjóra hópferðabílafyrirtækisins Teits Jónassonar ehf, sem hann segir veita innsýn í alvarleika málsins.
Í bréfinu staðfestir Haraldur að Hjalti hafi starfað hjá fyrirtækinu sumarið 2015 og hann hafi verið mjög fær bílstjóri. Hann hafi verið vel liðinn af farþegum og hafi fengið mörg lof og meðmælabréf frá farþegum. Óskað hafi verið eftir sakavottorði og Hjalti hafi skilað því inn.
Í bréfinu segir jafnframt að þegar Hjalti hafi verið búinn að starfa hjá fyrirtækinu í mánuð hafi borist hótanir frá hóp sem nefnist Stöndum saman, sem heldur úti vefsíðu með upplýsingum um barnaníðinga. Hópurinn hótaði því að ef fyrirtækið hefði Hjalta áfram í vinnu myndi myndi hann gera allt sem hann gæti til að skaða fyrirtækið. Þegar hótanirnar stigmögnuðust hafi fyrirtækið ekki séð sér fært að hafa Hjalta áfram í vinnu. Teitur Jónasson ehf, er einn þeirra aðila sem Hjalti segir í bréfinu hafa nýtt sér dóminn honum í óhag.
Hjalta var veitt uppreist æra í september á síðasta ári.